Óperukynning í Hömrum á mánudagskvöld kl.19:30.

10. febrúar 2012 | Fréttir

Tónlistarskólinn og Ópera Vestfjarða gangast fyrir óperukynningu í Hömrum mánudagsköldið 13.febrúar kl.19:30.

Á dagskránni er kynning á óperunni La Boheme, en þetta þekkta verk Giacomo Puccini er ein elskaðasta ópera allra tíma. Hún sló í gegn um leið og hún var frumsýnd í Torino á Ítalíu árið 1896 og fór eins og eldur í sinu um allan heim fljótlega eftir það og var sett upp um alla Ítalíu, í Buenos Aires, London, Berlín, París og Prag strax á næstu tveimur árum eftir frumsýningu.

Enn í dag skipar hún fjórða sætið á lista yfir þær óperur sem oftast eru settar á svið og er því óhætt að segja að hún hafi unnið hug og hjörtu óperugesta um allan heim allar götur síðan hún var frumsýnd fyrir rúmum hundrað árum. Í þessari frægu ástarsögu segir frá hópi bóhema í París á síðari hluta 19. aldar, sem þrátt fyrir fátækt og vosbúð kunna að njóta lífsins til hins ítrasta, en aðalpersónurnar eru saumakonan Mimi og ljóðskáldið Rodolfo. En það skiptast ennfremur á skin og skúrir í lífi unga fólksins og eins og í svo mörgum óperum endar sagan með harmrænum hætti.

Tónlist Puccinis er lífleg, heillandi og afar aðgengileg og kannast margir til að mynda við hina frægu tenóraríu „Che gelida manina (Hve köld hönd þín er) og sópranaríuna „Sì, mi chiamano Mimì (Já, ég er kölluð Mimì), sem þykja með fegurstu perlum óperubókmenntanna.

La bohème er vorverkefni Íslensku óperunnar á árinu 2012 og verður frumsýning í Elborgarsal Hörpu 16.mars nk.

 

Allir eru velkomnir á óperukynninguna, sem er ókeypis, en frjáls framlög í kaffisjóð vel þegin.

 

Á myndinni eru Anna Netrebko í hlutverki Mimi og Rolando Villazon í hlutverki Rodolfos 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur