Óperukvöld – La Traviata

22. október 2012 | Fréttir

 Annað óperukvöld Óperuklúbbsins í haust verður í Hömrum mánud. 29.okt. kl. 19:30.

Á dagskránni verður væntanlega óperan La Traviata í frægum kvikmyndabúningi Zeffirellis frá árinu 1983 með Placido Domingo og Teresa Stratas í hlutverkum Alfredos og Víólettu. DVD-diskurinn var pantaður fyrir nokkru en verður vonandi kominn í tíma, annars sýnum við eitthvað annað skemmtilegt í staðinn.

 

Hér má sjá ýmis brot úr þessari uppfærslu: http://www.youtube.com/watch?v=NcKdnkGBSgA&feature=mr_meh&list=PLCB53F34472C73034&playnext=0

 

Hér að neðan má lesa söguþráð óperunnar (fundið á heimasíðu Íslensku óperunnar www.opera.is)

 

Fyrsti þáttur

Víóletta Valéry, velþekkt fylgdarkona, býður gesti velkomna á heimili sitt, þar á meðal Flóru Bervoix, markgreifann af Obigny, Douphol barón og Gaston sem kynnir hana fyrir Alfredo Germont, ungum aðdáenda hennar. Sá síðastnefndi játar að hafa lengi dáðst að Víólettu. Hún biður hann að gerast forsöngvari í drykkjusöng og tekur sjálf undir gleðiskál. Þegar gestirnar fara inn í danssalinn verður Víólettu skyndilega ómótt svo hún staldrar við. Alfredo snýr áhyggjufullur til baka og tjáir henni ást sína. Í fyrstu segir Víóletta að ást skipti sig engu en einurð hans hrífur hana hún gefur honum kamillu, einkennisblóm sitt, og segir að hann megi vitja sín aftur þegar blómið er fölnað. Þegar gestirnir eru farnir veltir Víoletta fyrir sér hvort Alfredó sé sá sem gæti uppfyllt drauma hennar um ást. Hún hugleiðir þörfina fyrir að vera frjáls en fyrir utan heyrist í Alfredo lofsyngja rómantíkina.

 

Annar þáttur

Fyrra atriði

Nokkrir mánuðir líða og nú búa Víóletta og Alfredo fjarri borginni. Alfredo syngur um hamingju sína en þegar þjónustustúlkan Annína upplýsir að Víóletta hafi selt skartgripi sína til að standa undir kostnaði af dvöl þeirra flýtir Alfredo sér til borgarinnar til að taka málin í sínar hendur. Víóletta ætlar að tala við Alfredo en rekst þá á bréf frá Flóru sem býður til veislu um kvöldið. Hún leggur bréfið til hliðar þar sem hún hefur enga löngun til að taka upp fyrra líferni. Faðir Alfredos, Giorgio Germont, birtist óvænt og kefst þess að Víóletta segi skilið við Alfredo þar sem hneykslanlegt samband þeirra standi í vegi fyrir trúlofun systur hans. Víóletta neitar í fyrstu en þegar faðir hans segir að forgengileg æska hennar sé það eina sem Alfredo hrífist af samþykkir hún að færa þessa miklu fórn. Er Germont heldur brott sendir Víóletta bréf til Flóru og þiggur veisluboðið síðan tekur hún til við að skrifa Alfredo kveðjubréf. Þegar hann birtist óvænt flýtir hún sér að fela bréfið, tjáir honum klökk ást sína og flýtir sér á brott. Skömmu síðar færir sendiboði Alfredo bréfið frá henni. Germont kemur til að hugga harmisleginn son sinn og minnir hann á liðin ár í faðmi fjölskyldunnar. En þega Alfredo sér boðið frá Flóru ályktar hann að Víóletta hafi yfirgefið sig fyrir annan elskhuga og heitir þess að leita hana uppi.

 

– HLÉ –

 

Annar þáttur

Seinna atriði

Í kvöldverðarboði sínu fréttir Flóra hjá markgreifanum að Víóletta og Alfredo séu skilin að skiptum. Fram á gólfið stíga nú gestir klæddir sem sígaunar og spá fyrir fólkinu og nautabanar sem syngja um nautabanann og feimna kærustu hans. Alfredo kemur til veislunnar, lætur bitur orð falla um ástina og spilar fjárhættuspil af ákefð. Víóletta birtist föl og taugaóstyrk með gamla aðdáenda sinn Douphol barón upp á arminn, en hann tapar ítrekað fyrir Alfredo í spilinu. Þegar gestir ganga til borðs í næsta herbergi biður Víóletta Alfredo að yfirgefa samkvæmið áður en að hann ergi baróninn frekar. Alfredo misskilur umhyggju hennar og krefst þess að hún játi ást sína á baróninum. Hún telur sig bundna af loforði sínu við föður hans og læst því elska baróninn. Æfur af afbrýði kallar Alfredo hina gestina til vitnis, niðurlægir Víólettu og hendir vinningsfénu í hana. Gestirnir eru hneykslaðir á framferðinu og Douphol barón skorar hann á hólm. Í því kemur faðir hans og ávítar son sinn, sem er fullur iðrunar.

 

 

Þriðji þáttur

Víóletta er dauðvona af tæringu. Grenvil læknir tjáir Annínu að Víóletta eigi ekki langt eftir. Þegar hún vaknar les hún aftur yfir bréfið frá Germont sem segir að baróninn hafi aðeins særst í einvíginu við Alfredo, sem nú viti um fórnina sem hún færði og sé á leið til hennar til að biðjast fyrirgefningar. En Víóletta skynjar að það sé um seinan og kveður fortíð sína. Fagnaðarlæti berast að utan um leið og Alfredo birtist. Elskendurnir ráðgera nú að yfirgefa borgina fyrir fullt og allt. Germont og lækninn koma rétt í þann mund sem Víóletta reynir að beita síðustu kröftunum. Um leið og hún hrópar að nú snúi hún aftur til lífsins fellur hún örend niður.

 

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is