Óperuklúbburinn byrjar aftur – Kynning á Il Trovatore

26. september 2012 | Fréttir

Fyrsta óperukvöld klúbbsins verður nk. mánudag, 1.október kl. 19:30 og þar verður til umfjöllunar óperan Il Trovatore eftir meistara Giuseppe Verdi. Þetta er ópera sterkra tilfinninga – saga um ástir og hefnd. Tónlistin iðar að sama skapi af rómantík, fögrum laglínum og hrífandi aríum og kórum.

 

Þessi ópera verður einmitt viðfangsefni Íslensku óperunnar nú í haust og verður frumsýnd í Hörpu 20.október, en síðan verða 5 sýningar til viðbótar, sú síðasta 17.nóvember.  Eflaust eiga einhverjir eftir að sjá þá sýningu og þá er ekki verra að vera búin að kynna sér efnið og tónlistina fyrirfram.

Félagsgjald er ekkert og enginn aðgangseyrir, en gestir eru beðnir að koma með pening í kaffisjóð – 500 kr. í hvert skipti

 

Önnur verkefni Óperuklúbbsins í vetur verða væntanlega  La Traviata, Leðurblakan, Carmen og væntanlega eitt verkefni til viðbótar. 

 

 

IL TROVATORE

Söguþráður óperunnar

FYRSTI ÞÁTTUR: EINVÍGIÐ
Fyrsta atriði: Við Aljaferíahöllina um nótt

Ferrando, höfuðsmaður í her Luna greifa, stendur vörð með mönnum sínum á meðan greifinn er að njósna í hallargarðinum um ferðir sinnar heittelskuðu, Leonoru. Leonora er hirðmær drottningar og greifinn elskar hana af ástríðu. Hann er fullur afbrýði líka því að Leonora á sér annan aðdáanda sem syngur henni mansöngva um nætur. Mennirnir fá Ferrando til að segja þeim sögu úr bernsku greifans til að þeir sofni ekki. Luna átti yngri bróður sem talinn var í álögum af völdum sígaunanornar. Kerling var brennd fyrir galdur, en í sömu svipan hverfur drengurinn og þegar eldurinn í galdrakestinum er útbrunninn finnast barnsbein í öskunni. Ferrando segir að dóttir kerlingar muni hafa rænt sveininum og kastað honum á eldinn. Til hennar hefur ekkert spurzt síðan, en Ferrando segist mundu þekkja hana aftur ef hún yrði fyrir honum. Hann segir líka að nornin gamla gangi aftur, í allra kvikinda líki, og hafi drepið mann. Hermennirnir bölva henni í skelfingu.

Annað atriði: Í hallargarðinum sömu nótt

Leonora bíður þess með lagskonu sinni Ines að mansöngvarinn láti til sín heyra þessa nótt. En hann kemur ekki, og Leonora segir Ines frá því er hún sá hann fyrst. Hann fór þá með sigur af hólmi í burtreiðum og það kom í hennar hlut að krýna hann lárviði. En nú geisar stríð og langt er síðan hann hefur komið og sungið til hennar úr garðinum. Ines varar Leonoru við svo heitri ást, en Leonora segir að engu megi kvíða og hún muni láta lífið fyrir þennan söngvara ef hún fái hann ekki. Þær snúa aftur inn í höllina. Nú gengur Luna greifi í garðinn og lýsir ást sinni með miklum þunga. Og enn heyrist ástarsöngur: Mansöngvari á sér ekki nema einn málstað, segir þar, og það er hjartað. Leonora hleypur í fögnuði til greifans með ástarorð á vörum, en þá stígur söngvarinn fram og sakar hana um ótryggð. Hún hefur villst á þeim í náttmyrkrinu, og játar nú ást sína á söngvaranum einum. Luna verður heltekinn af afbrýði. Hann vill vita hver maðurinn er, og formælir honum þegar hann heyrir að hér er, ofan á annað, kominn herforingi Urgels greifa í hallargarð konungs. Manrico storkar greifanum til að kalla á verði og láta taka sig af lífi, en Luna vill einvígi þeirra tveggja og skorar hann á hólm. Leonora biður um miskunn, en greifinn heyrir það ekki og þeir Manrico hverfa til að berjast.

 

ANNAR ÞÁTTUR: SÍGAUNINN
Þriðja atriði: Sígaunabúðir í dögun

Fólkið í búðunum tygjar sig til vinnu, og Azucena syngur kvæði við eldinn af gamalli konu sem leidd er til brennu, berfætt í svörtum kufli, og hrópar svo á hefnd úr logunum. Sígaunarnir halda til bæjarins með varning sinn. Þegar fólkið er farið spyr Manrico Azucenu – móður sína, heldur hann – frekar um söguna af brennunni; hann hefur ekki heyrt hana fyrr. Hún kannast þá við að þetta sé saga móður sinnar og ömmu hans. Hún segir líka frá því að í hefndarskyni rændi hún yngri syni Luna greifa – þeim sem galdurinn átti að hafa dunið á – til að kasta honum á bálið þar sem móðir hennar brann. En hún var viti sínu fjær og uppgötvar þegar æðið rennur af henni að hún hefur ekki brennt greifasoninn heldur sinn eigin son.

Manrico er skelfingu lostinn, og spyr hver hann sé: er hann þá ekki sonur hennar? Jú, segir hún, það er heiftin sem sviptir hana viti þegar hún hugsar til þessara voðaverka svo að hún veit ekki hvað hún segir. Hún minnir hann á móðurást sína. Hún leitaði hann uppi á vígvelli þar sem hann var talinn hafa fallið fyrir hendi Luna greifa yngri, hún hafði hann með sér og hjúkraði honum og gaf honum lífið aftur. En Manrico verður hugsað til annars. Í einvígi þeirra Luna eftir fundinn í hallargarðinum fór Manrico með sigur af hólmi. Samt fékk hann ekki af sér að svipta greifann lífi: það var rödd af himni sem bauð honum að höggva ekki. Azucena brýnir fyrir honum að þyrma þessum manni ekki öðru sinni, og mæðginin sverja að koma fram hefndum.

Nú berst Manrico boð: Urgelsmenn hafa tekið Castellor sem er mikið virki, og þurfa Manrico til að verja það með þeim. Í bréfinu segir líka að Leonora hyggist ganga í klaustur, því hún trúi að Manrico hafi fallið í einvígi þeirra Luna. Azucena bannar Manrico að fara því að hann sé ekki enn heill sára sinna. En Manrico vill sinna bæði kvaðningunni til Castellor og sýna Leonoru að hann lifi.

Fjórða atriði: Fyrir framan klaustrið við Castellor

Luna greifi bíður færis með mönnum sínum. Ætlun þeirra er að nema Leonoru á burt með sér áður en hún vinnur klaustureiðinn. Ferrando aðvarar Luna: þetta sé versta verk. En Luna brennur af ástríðu frá hvirfli til ilja. Í klaustrinu er sunginn vígslusöngur og Leonora birtist fyrir framan klaustrið með lagskonum sínum. Hún er að kveðja þær þegar menn greifans taka hana höndum. En áður en þeir ná að hverfa af vettvangi birtist Manrico og menn hans með honum. Leonora flýr þá í fang Manricos og þau fara saman til virkisins.

 

ÞRIÐJI ÞÁTTUR: SONUR SÍGAUNANS
Fimmta atriði: Búðir Luna við Castellor

Konungsmenn sitja um Castellor sem óvinaher hefur enn á valdi sínu. Menn eru kátir, nema Luna sem getur ekki haft hugann af Leonoru í örmum erkióvinar síns. Þá kemur Ferrando og segir frá því að sígaunakerling hafi verið handtekin í grenndinni. Þegar hún er leidd fyrir greifann segist hún vera venjulegur sígauni á venjulegu flakki; hún hafi líka átt son sem hún finni hvergi. En Ferrando þykir hún kunnugleg og greifinn tekur að spyrja hana um barnshvarf mörgum árum áður. Sannleikurinn er ekki lengi að renna up fyrir þeim: hér er komin sú sem rændi bróður Luna, og reynist líka vera móðir Manricos. Azucena veit nú að sá sem yfirheyrir hana er Luna greifi, og hún formælir föður hans fyrir galdrabrennuna forðum daga. Greifinn sver að ná sér niðri á Manrico með því að gera móður hans allt til miska. Ferrando og hermennirnir hugleiða vítiskvalirnar sem nornin á í vændum.

Sjötta atriði: Í kapellu í Castellor

Leonora og Manrico bíða þess að verða gefin saman. Hún er hrædd við umsátursherinn, en hann biður hana að óttast ekki og sinna helst engu nema ást þeirra tveggja. Það hefst orgelspil í kapellunni, og þau eru um það bil að ganga til hjónavígslunnar þegar Ruiz ber þeim tíðindin af handtöku Azucenu. Konungsmenn hafa þegar kveikt í kestinum sem þeir ætla henni. Nú segir Manrico Leonoru í fyrsta sinn að hann sé sonur þessarar konu. Hann sér eldinn brenna og verður að bjarga henni hvað sem það kostar.

 

FJÓRÐI ÞÁTTUR: AFTAKAN
Sjöunda atriði: Við einn af turnum Aljaferíahallar

Ruiz vísar Leonoru á fangelsið í konungshöllinni. Hún er óhrædd því að hún hefur eitur falið í hring sínum sem hún ætlar að taka ef annað bregzt. Munkar syngja um miskunn Guðs, og hún veit að það boðar aftöku. Hún heyrir líka söng Manricos úr dýflissunni þar sem hann kveður hana og biður þess að hún gleymi sér ekki þótt hann deyi. Luna kemur úr höllinni og skipar svo fyrir að sonurinn sé höggvinn og móðirin brennd, þó svo hann kannist við að hann hafi ekkert vald til að fella slíka dóma. Enn hverfur Leonora ekki úr huga hans: hann veit ekki hvað um hana varð eftir að konungsmenn náðu Castellor aftur úr höndum uppreisnarhersins. Allt í einu birtist hún, og biður hann miskunnar eins og fyrr. En hann vill hefnd og espast upp því meir sem Leonora biður hann sára. Loks segir hún að Luna skuli fá hennar ef hann þyrmi Manrico. Hann trúir vart sínum eigin eyrum, en nú lætur hann undan og segir að Manrico skuli lifa. Þá tekur Leonora eitrið og fyllist fögnuði yfir lífgjöfinni.

Áttunda atriði: Dýflissa í höllinni

Það er kalt og mæðginin vaka í myrkrinu. Azucena sér fyrir endalok sín á galdrakestinum; Manrico biður hana að reyna að sofna því hún er þreytt. Hún vill að hann veki sig um leið og þeir tendri bálið. Á milli svefns og vöku sér hún sýn að þau hverfi saman til fjallanna heima og hann syngi og leiki á lútu. Leonora birtist nú og segir að lífi Manricos sé borgið. En þegar hún segist ekki geta fylgt honum þykist hann sjá í hendi sér að hún hafi selt ást sína Luna og bölvar henni. Hún segir honum þá frá eitrinu sem hún hefur tekið heldur en verða öðrum gefin. Greifinn kemur að vitja fanga sinna og sér Leonoru deyja við fætur Manricos. Hann æðir inn og skýtur Manrico og síðan dregur hann Azucenu að líki sonar hennar. Þá segir hún við hann: „Þetta er bróðir þinn!“ Svo hrópar hún: „Móðir, þín er hefnt!“ Greifinn lítur á Azucena með hryllingi og segir: „Og ég er á lífi“.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur