Rúmur helmingur kennara Tónlistarskóla Ísafjarðar hafa ákveðið að nýta vetrarfríið í næstu viku til endurmenntunar á sínu faglega sviði og leggja land undir fót í því skyni. Leiðin liggur til mennta- og menningarborgarinnar Boston þar sem kennararnir heimsækja tvo merkilega listaskóla og kynna sér starfsemi þeirra. Annar skólinn er The New England Conservatory Prep School en hljómsveit skólans heimsótti Ísafjörð með ákaflega eftiminnilegum hætti í júní síðastliðnum (sjá mynd). Hinn skólinn er Boston Arts Academy, en það er grunnskóli sem hefur vakið heimsathygli fyrir afburða árangur með nemendur sem koma úr erfiðum aðstæðum og leggur sérstaka áherslu á listir og skapandi greinar. Í báðum skólunum verður sérstaklega undirbúin dagskrá fyrir ísfirsku tónlistarkennarana. Þeir fá að hlusta á kennslu hópa og einstaklinga í fjölbreyttum greinum, eiga fundi með nemendum, kennurum og stjórnendum auk þess að fá að sjá sýningar og hlýða á tónleika í skólunum.
Kennararnir fá styrk úr starfmenntunarsjóði Félags íslenskra tónlistarkennara til ferðarinnar enda eru ferðir af þessu tagi ákaflega mikilvægar fyrir fagþróun kennara auk þess sem þær bæta starfsanda.