Minningartónleikar um Sigríði og Ragnar H. Ragnar

16. september 2011 | Fréttir

Hinir árlegu minningartónleikar um hjónin Ragnar H. Ragnar og Sigríði Jónsdóttur verða haldnir í Ísafjarðarkirkju sunnudaginn 25.september kl. 16, Minningartónleikarnir eru nú haldnir í 24. sinn en Ragnar lést árið 1987 og Sigríður sex árum síðar. Flytjendur á  tónleikunum er sönghópurinn VOCES THULES, en hann er skipaður tónlistarmönnunum Eggerti Pálssyni, Einari Jóhannessyni, Eiríki Hreini Helgasyni, Guðlaugi Viktorssyni og Sigurði Halldórssyni. Þeir leika á ýmis hljóðfæri meðfram söngnum, s.s. slagverk og blásturshljóðfæri og einnig kemur fram með hópnum Arngerður María Árnadóttir orgelleikari. Voces Thules hefur getið sér afar gott orð á síðustu árum fyrir flutning (bæði á tónleikum og geislaplötum) á íslenskri miðaldatónlist bæði hér heima og víða erlendis.  Árið 2009 var sönghópurinn tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs, sjá www.vocesthules.is

 

Á efnisskránni á tónleikunum í Ísafjarðarkirkju er einkum  tónlist frá miðöldum , m.a. gregoríanskir söngvar og vikivakakvæði, en einnig flytur hópurinn áhrifamikið verk, De profundis, eftir eistneska tónskáldið Arvo Pärt.

 

Eins og áður sagði eru tónleikarnir tileinkaðir minningu hjónanna Sigríðar Jónsdóttur og Ragnars H. Ragnar sem stýrðu Tónlistarskóla Ísafjarðar um áratuga skeið, en undir kraftmikilli stjórn þeirra varð Tónlistarskóli Ísafjarðar öflug menningarstofnun, sem nýtur virðingar um allt land. Aðgangseyrir er 2.000 kr., 1.500 kr.fyrir lífeyrisþega en ókeypis fyrir skólafólk 20 ára og yngra.

 

Sönghópurinn Voces Thules kom fyrst fram í ágúst 1991. Í fyrstu fór mest fyrir miðalda- og endurreisnartónlist frá meginlandi Evrópu og Bretlandseyjum á efnisskrám hópsins. Fljótlega bætti hann við nýrri tónlist og nokkur íslensk tónskáld skrifuðu fyrir hann. Fljótlega fór hópurinn að bæta einstaka fornum íslenskum lögum inní og ákváðu Voces Thules að stefna að heildarflutningi á Þorlákstíðum, sem ritaðar eru í einu merkasta tónlistarhandriti á Íslandi. Á Listahátíð í Reykjavík 1998 í Kristskirkju voru svo tíðirnar fluttar í heild á fimm tónleikum. Þá hafði Eggert Pálsson skrifað upp allt handritið samkvæmt nótnaritunarhefðinni fyrir gregorískan söng. Þorlákstíðir komu út á fjórum geisladiskum og í veglegri bók hannaðri af Brynju Baldursdóttur árið 2006 og hlaut Íslensku Tónlistarverðlaunin sem plata ársins.
Á meðan vinnan við Þorlákstíðir fór fram varð aðalviðfangsefni hópsins smám saman íslensk miðaldatónlist. Fyrst um sinn aðallega kirkjutónlist úr handritum en seinna meir einnig veraldlegur kveðskapur úr fornritunum. Þar hafa Voces Thules nýtt sér þjóðlög sem eru talin fornnorræn og lagað þau að öðrum textum, sérstaklega þau lög sem ganga við dróttkvæðan hátt. Einnig hafa þeir endurskapað stef útfrá ýmsum miðaldahljóðfærum sem þekkt voru á Íslandi sem byggjast á þeim hryn sem viðkomandi texti gefur til kynna. 
Annar geisladiskur Voces Thules, "Sék eld of þér" (Sé ég eld yfir þér), kom út í febrúar 2009. Geisladiskurinn inniheldur tónlist sem Voces Thules, ásamt Arngeiri Heiðari Haukssyni, settu við draumkvæði úr Sturlungu sem sagan hermir að sögupersónur hafi dreymt fyrir Örlygsstaðabardaga hinn 21. ágúst 1238. 
Voces Thules hafa sungið á ýmsum hátíðum og við ýmis tækifæri víða um heim.Auk Listahátíðar í Reykjavík 1996, 1998 og 2006 hafa þeir komið fram á Stamford Early Music Festival 1996, Norrænni listahátíð í Eystrasaltslöndunum 1997, Utrecht forntónlistarhátíðinni 2001, Listahátíðinni í Bergen 2002, “46664” baráttutónleikum til heiðurs Nelson Mandela í Tromsö 2005, 4 vikna tónleikaferð um helstu borgir Japan 2005, tónleikum í Amsterdam og Groningen í Hollandi sem gestir Hollensku Blásarasveitarinnar og á Sumartónleikum í Skálholtskirkju 1996, 1997, 1998, 2000, 2002, 2005 og 2008.
Sönghópurinn Voces Tules var þann 5. maí 2009 tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs fyrir flytjendur ársins 2008.

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is