Mikolaj Frach

26. ágúst 2023 | Fréttir

Mikolaj Ólafur Frach

Mikolaj Ólafur Frach

Mikolaj Frach

Það er mikill fengur fyrir Tónlistarskóla Ísafjarðar að fá Mikolaj Ólaf Frach til liðs við okkur. Hann er mörgum að góðu kunnur, enda er hann borinn og barnfæddur Ísfirðingur. Foreldrar hans eru Janusz, fiðluleikari og Iwona Frach, píanóleikari, sem bæði kenna við skólann.

Það er ekki bara hvað drengurinn ber góða persónu, heldur er hann einn af efnilegustu píanóleikurum landsins. Hann stundar nú mastersnám við Tónlistarháskólann í Kraká hjá Cieniawa-Puchala, en tók sér eins árs leyfi frá námi og styrkir þannig enn frekar okkar frábæra kennarahóp í vetur.

Margir Ísfirðingar hafa fylgst með honum og bræðrum hans, Maksymilian og Nikodem, vaxa í tónlistinni frá því að þeir voru smábörn, en mörgum er í fersku minni þegar Mikolaj spilaði með Sinfóníuhljómsveit Íslands í tónleikaferð hennar til Ísafjarðar 2019 og þegar hann brilleraði með Sinfó í Klassíkinni okkar í fyrra, sem var sjónvarpað beint. Það er mjög eftirminnilegt fyrir þau sem voru þar, hvernig Ísfirðingabekkurinn í Eldborg nötraði af stolti þegar Mikolaj sýndi yfirvegun sína, tækni, tónlistargáfur og næmni í þriðja kafla 1. píanókonserts Chopin.

Fjölskyldan er þekkt fyrir heilbrigðan lífsstíl og Mikolaj Ólafur hefur þar af leiðandi bæði stundað gönguskíði og sund til viðbótar við þrotlausar æfingar á píanó. Við uppskerum eins og við sáum og Mikolaj er lifandi dæmi um heilbrigðan einstakling sem blómstrar í því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna í píanókeppnum, t.d. EPTA keppninni, Chopin píanókeppninni í Reykjavík og Píanókeppni Norðurlanda í Ingesund, komið fram á mörgum tónlistarhátíðum, spilað með virtustu fiðluleikurum Póllands, Wawrowski og Tarcholik, þrátt fyrir ungan aldur. Við erum mjög heppin að fá að njóta krafta hans um stund.

Við bjóðum Mikolaj Ólaf hjartanlega velkominn heim og hlökkum til samstarfsins í vetur!