Mikolaj Ólafur Frach sló í gegn í Hörpu

2. september 2022 | Fréttir

Það lá við að Ísfirðingabekkurinn í Eldborg spryngi í loft upp af stolti þegar Mikolaj Ólafur Frach sló í gegn með 1. píanókonsert Chopin, 3. kafla. Bravissimo kæri Mikolaj!
Mikolaj hefur allt til að bera sem einkennir sannan listamann, elju, alúð, funheita tilfinningu og síðast en ekki síst … hógværð. Sumir líta á listina sem tæki til að sýna snilli sína og upphefja sjálfa sig, en aðrir líta á sig sem auðmjúka þjóna listarinnar. Og þeir eru langbestir. Þeirrar gerðar er Mikolaj, eins og glögglega kom fram þegar hann kom til að kenna á Ísafirði í forföllum móður sinnar í fyrra. Þúsundir áhorfenda urðu nú vitni að þessu aðdáunarverða viðhorfi í stórglæsilegri spilamennsku og einstaklega fallegu viðtali.
Mikolaj skaust upp á stjörnuhimininn á þessum tónleikum með gríðarlegri leikni og hendingamótun beint frá hjartanu, en mikinn þátt í sigrinum á sú fallega persóna sem hann ber.
Þau Iwona og Janusz mega sannarlega vera stolt af öllum þremur framúrskarandi sonum sínum, Mikolaj, Maksymilian og Nikodem. Allir sem þekkja þá, vænta mikils af þeim. Hvílík lukka að foreldrarnir skyldu gerast tónlistarkennarar á Ísafirði. Til hamingju elsku vinir og til hamingju Ísland!
Þetta voru stórkostlegir tónleikar þar sem hver einleikarinn á fætur öðrum heillaði áhorfendur upp úr skónum. Á stundum sem þessum skynjum við að tónlistin er í eðli sínu frumþörf og tæki til að efla mennsku í veröldinni, fegurð og samkennd.
Takk fyrir okkur og ég endurtek: Bravissimo Mikolaj!