Húsfyllir var á fyrstu miðsvetrartónlekum Tónlistarskóla Ísafjarðar í Hömrum í gærkvöld. Dagskráin var fjölbreytt, skólalúðrasveitin lék, barnakórinn söng og strengjasveitin spilaði með sex unga einleikara í forgrunni, en einnig kom fram fjöldi annarra nemenda í einleik og samleik. Listafólkið unga stóð sig með mestu prýði og vöktu mikla hrifningu áheyrenda og í lokin mátti heyra blístur og hróp eins og best gerist á popptónleikum.
Tónleikaröðin heldur áfram og í kvöld kl. 19:30 verða aftur tónleikar í Hömrum. Þar verður m.a. blásarasveit eldri nemenda og samleikur á flyglana tvo sem standa í Hömrum en fágætt er að tónlistarnemar hafi tækifæri til slíks samleiks. Á sunnudaginn kl. 16:00 verða svo þriðju tónleikarnir og þar kemur m.a. fram blásarasveit yngri nemenda, strengjasveitin og forskólabörn.
Allir eru velkomnir á tónleikana.