Mikil aðsókn á viðburði Tónlistarhátíðar æskunnar

18. mars 2009 | Fréttir

Í tilefni af Degi tónlistarskólanna 2009 efndi Tónlistarskóli Ísafjarðar til Tónlistarhátíðar æskunnar  sem hófst fimmtudaginn 26.febrúar og lýkur föstudaginn 6.mars.

 

Dagskráin hófst fimmtudaginn 26.febrúar, með „Vöfflutónum“  – heimsókn Barnakórs skólans og nokkurra ungra hljóðfæraleikara á Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði. Þar léku þau og sungu fyrir vistmenn og starfsfólk sem tók þeim forkunnar vel og bauð í vöffluveislu á eftir Í tónlistarsalnum Hömrum á Ísafirði voru haldnir tvennir nemendatónleikar af  þessu tilefni, fimmtudagskvöldið 26.febrúar kl. 19:30 og laugardaginn 28.febrúar kl. 16:00. Troðfullt hús var á báðum tónleikunum og gerðu áheyrendur góðan róm að dagskránni og frammistöðu nemendanna. Atriðin voru afar fjölbreytt, enda var sérstök áhersla lögð á samleik nemenda.

 

Nemendur komu fram í hópum, smáum og stórum, alls yfir 60 mismunandi atriði. Á fyrri tónleikunum kom m.a. fram forskólahópur yngstu barnanna og flutti þjóðlög og stúlknakórinn söng negrasálma, hvort tveggja undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur. Tónleikunum lauk með ljúfum bossanovatónum hljómsveitar þar sem slagverkið var í aðalhlutverki. Ef til vill vakti þó mesta athygli hljóðgjörningurinn „Glundroði“. Þar komu fram sex nemendur Ágústu Þórólfsdóttur sem framleiddu ýmis skemmtileg hljóð á afar nýstárlegan hátt. Á síðari tónleikunum var dagskráin ekki síður fjölbreytt, m.a. píanódúett, fiðlusamspil , gítarhópar, blásarasextett, mambósveit, strengjasveit skólans og skólalúðrasveitin. Aðgangur að tónleikunum var ókeypis en Styrktarsjóður skólans seldi  veitingar í hléi og rennur allur ágóði til ýmissa verkefna fyrir skólann.

 

Miðvikudagskvöldið 4. mars halda nemendur í útibúum skólans á Suðureyri og Flateyri sameiginlega tónleika í mötuneyti Eyrarodda á Flateyri.

 

Föstudaginn 6.mars verða í Hömrum skólatónleikar fyrir nemendur 4., 6. og 8.bekki Grunnskólans á Ísafirði. Haldnir verða þrennir tónleikar á skólatíma, þar sem tónlistarnemar í hverjum árgangi fyrir sig leika fyrir kennara sína og bekkjarfélaga.

 

Tónlistarhátíðinni lýkur í hádeginu á föstudeginum 6.mars þegar tónlistarkennarar bjóða bæjarbúum til fjöldasöngs á göngum Stjórnsýsluhússins. Þar verða tekin nokkur hress og skemmtileg lög við allra hæfi en þetta verður í 4. sinn í vetur sem efnt verður til samsöngs af þessu tagi í Stjórnsýsluhúsinu. Er söngnum ætlað að hvetja og gleðja fólk á erfiðleikatímum.

 

Halldór Sveinbjörnsson ljósmyndari tók meðf. myndir á tónleikunum 28.febrúar og veitti góðfúslega leyfi til birtingar þeirra hér á vefnum.
 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is