Maksymilian leikur Árstíðirnar fjórar í Hömrum

27. október 2011 | Fréttir

Sunnudaginn 6.nóvember kl. 15:00 verður eitt þekktasta og vinsælasta verk tónbókmenntanna, Árstíðirnar fjórar eftir Antonio Vivaldi, fluttar í Hömrum. Árstíðirnar eru  fjórir einleikskonsertar fyrir fiðlu og strengjasveit, og ber hver konsert heiti árstíðar – sumar vetur, vor og haust. Síðan skiptist hver konsert í þrjá undirkafla. Tónlistin lýsir hinum ólíku árstíðum á skemmtilegan hátt og má m.a. heyra storminn þjóta, gaukinn gala, hundana gelta og þyt veiðilúðranna.

Það er Maksymilian Frach,  15 ára fiðlunemandi í Tónlistarskóla Ísafjarðar, sem leikur einleikinn í öllum konsertunum og með honum leikur strengjakvartett, sem er skipaður Januszi Frach og Margréti Soffíu Einarsdóttur á fiðlur, Eydísi Ýr Rosenkjær á víólu og Þorgerði Eddu Hall á selló. 
Tónleikarnir eru síðari hlutinn í framhaldsprófi Maksymilians en fyrri hlutann tók hann með glæsibrag sl. vor.
 
Stefnt er að því að síðar verði flutt stytt útgáfa af þessu skemmtilega verki fyrir skólabörn á Ísafirði.
 
Aðgangur að þessum tónleikum er ókeypis, en skólinn nýtur styrks frá Menningarráði Vestfjarða til þessa verkefnis.