Madis Mäekalle
Þetta er hann Madis, sem kennir á ýmis blásturshljóðfæri, maðurinn sem setur allt í gang með lúðrasveitinni þegar eitthvað er um að vera á Ísafirði. Bæjarlistamaður Ísafjarðar 2020.
Eiginlega langar mann helst að standa upp og hneigja sig ofan í gólf, þegar Madis kemur á kaffistofuna. En það myndi hann aldeilis ekki kunna við. Það má segja að hann svífi inn í skólann í hógværð sinni og látleysi kl. hálfníu á morgnana, en þá hefst hann handa við að útsetja og undirbúa kennsluna. Friðsamari, vinnusamari og velviljaðri mann er erfitt að finna.
Foreldrar hafa sagt okkur að börnin hlakki alltaf til spilatímanna hjá Madis. Það er nefnilega öryggi, mennska og góðvild í stofunni hans, holl blanda fyrir ungar sálir.
Ekki vita allir að Madis er göngugarpur hinn mesti. Efra vegabréfið á myndinni er frá fyrstu göngu hans um Jakobsveginn fyrir fjórum árum, en sú ganga var 700 km. Ferðirnar um Jakobsveginn síðan þá hafa verið frekar stuttar, eða um 300 km hver, eiginlega bara steinsnar, eða þannig! Hann má ekki alltaf vera að því að fara alla 700 kílómetrana.
Madis er nefnilega svo samviskusamur að hann þarf þarf að sinna fólkinu sínu í Eistlandi á sumrin, en þar fæddist hann í bænum Vendra, sem er um 120 km frá höfuðborginni Tallin, byrjaði að læra á klarinett í 5. bekk og jók svo smám saman við hljóðfærakostinn, en í háskólanum í Tallin lagði hann stund á lúðrasveitarstjórn. Heppin við að þau Kaja skuli vilja búa hér hjá okkur ásamt frábærum dætrum sínum þremur!