Lokatónleikar Fjólu á fimmtudagskvöld

17. maí 2010 | Fréttir

Einn af lengst komnu nemendum Tónlistarskóla Ísafjarðar, Fjóla Aðalsteinsdóttir flautuleikari,  heldur tónleika í Hömrum fimmtudaginn 20.maí kl. 20:00. Eru þetta lokatónleikar hennar frá skólanum.  Á dagskránni eru verk eftir Pergolesi, Bach, Mozart, Gluck, Poulenc, Bizet o.fl.  Meðleikari hennar á píanó er Sigríður Ragnarsdóttir. Allir eru velkomnir á tónleikana.

Fjóla Aðalsteinsdóttir hóf nám við Tónlistarskóla Ísafjarðar haustið 1997 og lærði þá á blokkflautu hjá Gísla Magnússyni. Næsta ár varð þverflautan fyrir valinu og hefur hún verið hennar hljóðfæri æ síðan. Erling Sörensen kenndi henni fyrstu fjögur árin, þá tók Lech Szyszko við kennslunni og kenndi henni í tvö ár, en frá haustinu 2004 hefur Jónas Tómasson verið flautukennari hennar.  Fjóla lauk miðprófi á flautu vorið 2008. Síðustu tvo vetur hefur Fjóla einnig stundað píanónám, í fyrra hjá Sigríði Ragnarsdóttur en í vetur hjá Elínu Jónsdóttur og lýkur grunnprófi nú í vor.

Fjóla hefur lagt stund á bóklegar greinar tónlistarinnar, tónfræði, hljómfræði, tónheyrn og tónlistarsögu og hafa kennarar hennar í þeim greinum verið Elín Jónsdóttir, Jónas Tómasson og Iwona Kutyla. Hún hefur margsinnis hlotið viðurkenningar skólans fyrir ágætan námsárangur í bóklegum greinum.
 

Fjóla hefur alla tíð verið mjög virk í skólastarfinu, komið fram á ótal tónleikum og við mörg önnur tækifæri sem fulltrúi skólans. Hún hefur einnig verið þátttakandi í margs konar samleiksverkefnum og leikur nú með lúðrasveit skólans. Fjóla hefur tekið þátt í námskeiðum á vegum skólans m.a. hjá Guðrúnu Birgisdóttur flautuleikara.

Fjóla lauk stúdentsprófi vorið 2009 og hefur sl. vetur unnið á Bókasafninu á Ísafirði. Næsta vetur hyggst hún leggja stund á nám í líffræði við Háskóla Íslands, en einnig sækja tíma í þverflautuleik meðfram háskólanáminu.