Nk. fimmtudagskvöld 4. september kl.20:00 heldur píanóleikarinn Birna Hallgrímsdóttir tónleika í Hömrum, sal Tónlistarfélags Ísafjarðar við Austurveg. Yfirskrift tónleikanna er "Ljóð án orða" en á þeim verða flutt píanóverk eftir Franz Liszt og Edvard Grieg, falleg, ljóðræn og aðgengileg efnisskrá sem krefst engu að síður mikillar tæknikunnáttu og leikni. Tónleikarnir eru áskriftartónleikar á vegum Tónlistarfélags Ísafjarðar og gilda áskriftarkort félaga, en einnig verður seldur aðgangur við innganginn á kr. 2.000, kr. 1.500 fyrir lífeyrisþega og ókeypis fyrir nemendur 20 ára og yngri. Tónleikarnir njóta stuðnings Félags íslenskra tónlistarflytjenda (FÍT).
Birna er í hópi fremstu tónlistarmanna okkar Íslendinga af yngri kynslóðinni. Hún lauk B.Mus. gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2006 og meistaraprófi í píanóleik frá Royal College of Music í London árið 2009. Hún hefur einnig stundað nám við tónlistarháskólana í Kuopio í Finnlandi og Stavanger í Noregi. Helstu kennarar Birnu hafa verið Peter Maté, Kirsti Huttunen, Hakon Austbö, Ian Jones o.fl. Birna hefur verið virk í íslensku tónlistarlífi síðustu árin og komið fram á fjölda tónleika af ýmsum toga. Hún hélt "debut"tónleika sína í Salnum í Kópavogi 2009 og lék píanókonsert Griegs með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins árið eftir. Þá hefur hún tekið þátt í tónleikum Classical Concert Company í Hörpu undanfarin sumur. Birna hefur hlotið ýmsi verðlaun og viðurkenningar fyrir píanóleik sinn, hlaut aðalverðlaun EPTA-píanókeppninnar á Íslandi, menningarstyrk Valitors og námsstyrki úr minningarsjóðunum um Karl Sighvatsson og Birgi Einarson lyfsala. Árið 2011 var hún valin bæjarlistamaður Seltjarnarness og á þessu ári hlaut hún styrk frá Félagi íslenskra tónlistarflytjenda (FÍT) til tónleikahalds á landsbyggðinni. Á næstunni heldur hún einleikstónleika í Norræna húsinu í tónleikaröðinni "Klassík í Vatnsmýrinni".