Laufabrauðsdagur á laugardag í mötuneyti MÍ

17. nóvember 2009 | Fréttir

Styrktarsjóður Tónlistarskóla Ísafjarðar stendur fyrir laufabrauðsgerð í mötuneyti Menntaskólans á Ísafirði á laugardag.

Í árafjöld hafa velunnarar skólans, mestmegnis nemendur, foreldrar þeirra og fyrrverandi nemendur skólans, komið saman og bakað laufabrauð sem boðin verða á árlegri jólatorgsölu á Silfurtorgi. Jafnt ungir sem aldnir keppast þá við að skera út en oftast er það þrautreynd sveit styrktarsjóðskvenna sem sér um steikinguna. Áætlað er að hafist verði handa um kl. 10 og eru allir boðnir velkomnir að leggja hönd á plóg og skera út nokkrar kökur og komast um leið í jólagírinn. Tilvalið er fyrir fjölskylduna að byrja jólaundirbúninginn með því að koma og skera laufabrauð með okkur og upplagt er að líta inn í klukkutíma!
Skemmtileg stemmning skapast oft á þessum degi, sem er eins konar undanfari þessa yndislegasta tíma ársins, aðventunnar. Hafið með ykkur lítinn hníf (vasahníf eða annað ámóta) og gjarnan skurðarbretti. Hafið í huga að börn undir tíu ára aldri þurfa aðstoð frá foreldrum
Munið: Margar hendur vinna létt verk!

 

Laufabrauð er eitt af sérkennum jólahalds á Íslandi. Að því er fram kemur á jól.is felst sérstaða laufabrauðs einkum í því hversu næfurþunnt það á að vera. Upphafleg orsök þeirrar þynnku er langsennilegast sá skortur á korni sem löngum hrjáði Íslendinga, ekki síst á einokunartímanum á 17. og 18. öld. Með því að skera hráefnið sem mest við nögl var unnt að gefa fleiri munnum að smakka lostætið og útskurðurinn gerði kökurnar enn girnilegri.