Kristín Harpa í Hæfileikakeppni Íslands

13. apríl 2012 | Fréttir

Ísfirski tónlistarneminn Kristín Harpa Jónsdóttir er meðal átján einstaklinga sem stíga á svið í Hæfileikakeppni Íslands sem heldur áfram á SkjáEinum í kvöld. Í kynningu á keppendur í Monitor segir um Kristínu Hörpu: „Þessi Ísafjarðarmær hefur mikinn áhuga á tónlist, söng og leiklist. Hún er skapgóð og hlátursmild og það fyndnasta sem hún hefur lent í var þegar hún festi fingur á milli pínaónótna. Kristín hyggur á framhaldsnám í tónlist, helst í New York, og langar að öðlast frægð fyrir hæfileika sína.“
Kristín Harpa hefur lengi verið í hópi duglegustu nemenda Tónlistarskóla Ísafjarðar. Aðalhljóðfæri hennar hefur jafnan verið píanóið og er hún í framhaldsstigi, en einnig hefur hún lagt stund á fiðlu og söngnám. Hún hefur verið fulltrúi skólans við fjölmörg tækifæri, m.a. í EPTA-píanókeppninni árið 2009 en þá komst hún í úrslit í sínum flokki og árið 2010 komst hún í úrslit í lokakeppni NÓTUNNAR, uppskeruhátíðar tónlistarskólanna.
 
Sjónvarpsþættirnir sem framleiddir eru af Saga Film og verður úrslitaþátturinn sýndur í byrjun maí í beinni útsendingu.