Jón Gunnar til starfa við skólann

12. september 2016 | Fréttir


Jón Gunnar Biering Margeirsson gítarleikari er nýráðinn kennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Hann mun stjórna útibúi skólans á Þingeyri og sjá þar um alla tónlistarkennslu. Hann tekur við keflinu af Tuuli Rähni sem hefur verið deildarstjóri á Þingeyri undanfarin ár en tók nú nýverið við organistastöðu við Ísafjarðarkirkju.   Auk þess að sjá um útibúið á Þingeyri mun Jón Gunnar einnig sinna fræðakennslu við Tónlistarkólann á Ísafirði og sjá um skapandi tónlistarmiðlun. Skapandi tónlistarmiðlun byggist á þjálfun í hljóðfæraleik og/eða söng, hvort sem er með hryntónlist eða sígilda og samtímatónlist sem viðfangsefni, og er skipulagt þannig að það nýtist vel þeim sem áhuga hafa á að nýta sér tónlistina til miðlunar og sköpunar.  Jón Gunnar er reynslumikill tónlistarmaður og kennari sem sinnt hefur kennslu víða á höfuðborgarsvæðinu m.a. við Listaskóla Mosfellsbæjar og LHÍ. Við fögnum því að fá Jón Gunnar til starfa við skólann, hlökkum til samstarfsins og bjóðum hann hjartanlega velkominn til starfa.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur