Jólakort Styrktarsjóðs Tónlistarskóla Ísafjarðar er nú komið út. Jólakortið er að þessu sinni prýtt vetrarljósmynd af tónlistarskólahúsinu við Austurveg, en myndina tók Halldór Sveinbjörnsson. Þessi sögufræga bygging hýsti  Húsmæðraskólann Ósk í áratugi eða allt frá byggingu þess árið 1948 þangað til slíkri kennslu var alfarið hætt í húsinu á tíunda áratugnum. Tónlistarskóli Ísafjarðar fékk fyrst aðstöðu til kennslu á efstu hæð hússins árið 1986 en fékk húsið til fullrar eignar árið 1998. Arkitekt var Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins og þykir húsið gott dæmi um „lýðveldisstíl“ hans.

Jólakortin eru seld 6 í pakka á kr. 1.000 og eru þau til sölu hjá nemendum skólans sem ganga í hús og selja kortin, en einnig er hægt að fá þau á skrifstofu skólans og víðar. Eru velunnarar skólans hvattir til að taka vel á móti sölubörnunum og styrkja skólann með kaupum á kortinu.

Styrktarsjóðurinn var stofnaður fyrir 30 árum (21.nóv. 1981) til að safna peningum til húsbyggingar Tónlistarskólans. Eftir að skólinn komst í eigið húsnæð hefur sjóðurinn keypt ýmis nauðsynlegan tækjabúnað og þ.h. fyrir skólann. Starfsemi sjóðsins er mest á aðventunni og snýst þá um þetta þrennt: Laufabrauðið, torgsalan og  jólakortasala.