Ítalskur píanósnillingur í heimsókn

18. mars 2009 | Fréttir

Um næstu helgi er væntanlegur til  Ísafjarðar ítalski píanósnillingurinn Domenico Codispoti. Laugardaginn 21. febrúar kl. 15  heldur  hann einleikstónleika í Hömrum á vegum Tónlistarfélags Ísafjarðar og verður einnig með master-class á föstudeginum fyrir lengra komna nemendur Tónlistarskóla Ísafjarðar. 

 

Á efnisskrá tónleikanna verða verk eftir Liszt, Rachmaninoff, Schumann og Granados. Tónleikarnir eru 2. áskriftartónleikar félagsins á starfsárinu og gilda áskriftarkort sem aðgöngumiðar en einnig verður seldur aðgangur við innganginn.

 

Domenico Codispoti fæddist árið 1975 í Catanzaro í Calabria á Suður-Ítalíu. Eftir glæsilegan námsferil  gerði hann víðreist og hefur hann haldið einleikstónleika og leikið með virtum sinfóníuhljómsveitum á meginlandi Evrópu, í Bandaríkjunum og Asíu. Codispoti hefur hvarvetna hlotið lof áheyrenda og gagnrýnenda fyrir leik sinn og hefur hann unnið til fjölda verðlauna. Hann hefur verið fenginn til að dæma í alþjóðlegum píanókeppnum og hin síðari ár hefur hann fengist í auknum mæli við að leiðbeina nemendum á masterclass námskeiðum.

 

Codispoti hefur áður sótt Ísland heim. Hann lék á Tíbrártónleikum í Salnum og á Ísafirði árið 2000, með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2001, í Ými árið 2003  og í Hafnarborg í samvinnu við Listahátíð 2006. Síðast sótti Codispotis Íslandi heim fyrir tveimur árum og hélt  þá tónleika í Salnum og masterclass-námskeið. Tónleikarnir fengu framúrskarandi dóma og voru valdir einir af fernum bestu tónleikum ársins 2007 að mati dagskrárgerðarmanns  RÚV, Arndísar Bjarkar Asgeirsdóttur. Domenico var beðinn um að endurtaka námskeiðs-  og tónleikahald og leikur nú á Hömrum á Ísafirði og Salnum í Kópavogi.