Ísfirskur bassaleikari útskrifast úr FÍH

12. apríl 2012 | Fréttir

Ungur ísfirskur tónlistarmaður, Freysteinn Gíslason bassaleikari, heldur burtfarartónleika úr Tónlistarskóla FÍH annað kvöld, föstudagskvöldið 13.apríl kl.20:00. 

Á unglingsárunum stundaði Freysteinn bassanám hjá Sig. Friðrik Lúðvíkssyni við Tónlistarskóla Ísafjarðar um nokkurra ára skeið og kom þá margsinnis fram á tónleikum skólans við ýmis tækifæri, m.a. í Djasshljómsveit skólans sem þá var starfandi. Hann flutti einnig gjarnan frumsamin lög, ýmist eftir sjálfan sig eða ýmsa félaga sína sem einnig stunduðu nám við skólann. Í bæklingi sem Tónlistarskóli FÍH hefur gefið út í tilefni burtfarartónleikanna í skólanum, kemur fram að Freysteinn tók upp þráðinn í tónlistarnáminu þegar hann var 21 árs gamall og hefur stundað þar nám á kontrabassa og rafbassa  í sex og hálft ár. Aðalkennarar hans hafa verið Róbert Þórhallsson, Hilmar Jensson og Gunnar Hrafnsson.

Á tónleikunum, sem verða í Hátíðarsal FÍH við Rauðagerði annað kvöld, verða eingöngu flutt frumsamin verk eftir Freystein, en auk hans koma fram á tónleikunum  Grímur Hjörleifsson á píanó, Óskar Kjartansson á trommur, Helgi Rúnar Heiðarsson á saxófón og Gabríel Markan á gítar.

Það er ákaflega ánægjulegt þegar fræ sem sáð hefur verið hér í skólanum bera svo ríkulegan ávöxt og Tónlistarskóli Ísafjarðar óskar Freysteini og fjölskyldu hans innilega til hamingju með þennan mikla áfanga. Freysteinn hyggur á framhaldsnám eða eins og hann segir sjálfur svo fallega í áðurnefndum bæklingi:

„Ég hef metnað til þess að fara lengra í tónlist enda er það hún sem heldur mér gangandi og gerir lífið svona fallegt. Að fylgja draumum sínum er eitthvað sem allir ættu að gera, hamingjan býr í draumunum og það er eitthvað sem allir sækjast eftir."