Sólarkaffi Ísfirðingafélagsins í Reykjavík er einn af stóru viðburðunum í samkvæmislífinu og er ávallt reynt að vanda til skemmtiatriða og danshljómsveitar. Nú ber svo við að Halldór Smárason hefur tekið að sér tónlistarstjórn í veislunni og fær hann til liðs við sig samnemendur sína ísfirska úr Listaháskólanum og aðra ísfirska tónlistarnema í Reykjavík, auk þess sem vestfirska hljómsveitin Apolló leikur fyrir dansi.
Er sérlega ánægjulegt til þess að vita að ísfirsk tónlistarflóra í höfuðstaðnum skuli vera orðin svona fjölbreytt og vönduð. Margir ísfirskir tónlistarnemar hafa hlotið vegleg peningaverðlaun sem Ísfirðingafélagið hefur veitt skólanum mörg undanfarin ár.