Ísfirðingar á sinfóníutónleikum

22. október 2010 | Fréttir

Sinfóníuhljómsveit Íslands stendur fyrir sex skólatónleikum og fjölskyldutónleikum næstu daga, þar sem Ísfirðingar koma við sögu.Á tónleikunum flytur hljómsveitin klukkustundar langa fjölskylduútgáfu af Töfraflautu Mozarts, vinsælustu ævintýraóperu allra tíma, þar sem öll vinsælustu lögin fá að fljóta með.
Halldóra Geirharðsdóttir leikkona segir söguna af sinni alkunnu snilld, en ungir söngvarar bregða sér í helstu hlutverkin, þ.á.m. Ísfirðingurinn Herdís Anna Jónasdóttir og Hrund Ósk Árnadóttir, sem er dóttir Árna ingasonar og stjúpdóttir Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttir sem búsett eru á Ísafirði. Herdís Anna syngur hlutverk prinsessunnar Paminu en Hrund Ósk er sjálf Næturdrottningin. Aðrir söngvarar eru Sveinn Dúa Hjörleifsson, Jón Svavar Jósefsson og Tinna Árnadóttir, en stjórnandi er Bernharður Wilkinson
Það er álit margra að Töfraflautan sé einhver fullkomnasta ópera sem samin hefur verið. Þar kemur bæði til stórfengleg tónlist Mozarts og skemmtilegt ævintýri þar sem kennir margra grasa.
Ævintýrið um Töfraflautuna verður flutt á fernum skólatónleikum á fimmtudag og föstudag en á laugardag verða tvennir fjölskyldutónleikar, sem eru opnir öllum – sjá nánar á www.sinfonia.is
 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is