Innritun tónlistarnema á Þingeyri

27. ágúst 2011 | Fréttir

Píanóleikarinn Tuuli Rähni hefur nú verið ráðin sem deildarstjóri útibús Tónlistarskóla Ísafjarðar á Þingeyri á komandi vetri. Henni til aðstoðar við kennsluna verður  maður hennar, klarinettuleikarinn Selvadore Rähni. Saman munu þau bjóða upp á fjölbreytt námsframboð, píanó, harmóníku, blokkflautu, þverflautu, klarinett, saxófón, kornett,  gítar, bassa,  trommur, hljómsveitastarf og dægurlagasöng. 

 
Þau Tuuli og Selvadore eru búsett í Bolungarvík þar sem hann starfar sem skólastjóri við Tónlistarskólann. Þau hafa starfað á Íslandi frá árinu 2005, en þar áður höfðu þau starfað í Japan.  Tuuli og Selvadore eru bæði afar vel menntaðir kennarar og einstaklega færir hljóðfæraleikarar, en þau héldu einmitt saman metnaðarfulla tónleika í Hömrum sl. vor, auk þess sem þau komu fram á 100 ára afmæli Þingeyrarkirkju.
 
Innritun tónlistarnema á Þingeyri verður þriðjudaginn 30.ágúst kl. 17-19 í húsnæði  Tónlistarskólans í Félagsheimilinu.  Þar verða þau hjónin bæði ásamt skólastjóra Sigríði Ragnarsdóttur og geta kynnt sér námsframboð og fyrirkomulag tónlistarnámsins í vetur. 
 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is