Innritun nýrra nemenda hófst í dag

16. ágúst 2017 | Fréttir

Innritun nýrra nemenda við Tónlistarskóla Ísafjarðar hófst í dag, miðvikudaginn 16. ágúst. Skrifstofa skólans er opin frá kl. 10:30 til 14:30 en þar eru veittar allar upplýsingar um námið. Starfið í skólanum er fjölbreytt sem fyrr.  Boðið er upp á kennslu á fjölda hljóðfæra, söngnám og tónfræðagreinar, auk forskóla, kóra, lúðrasveita, strengjasveita og hljómsveitarsamspils í rytmískri deild.

Á skólaárinu sem nú fer í hönd verður einnig boðið upp á ýmsar nýungar í skólastarfinu og má þar nefna unglingasöngdeild og nám í raftónlist fyrir unglinga. Þetta eykur enn frekar við fjölbreytt námsframboð skólans og er spennandi valkostur fyrir unglinga. Vakin er athygli á því að hægt er að sækja sérstaklega um nám í hljómsveitarsamspili og raftónlist þó nemandinn sé ekki skráður í annað hljóðfæranám við skólann en hljóðfæranemendum skólans býðst að taka þátt í námskeiðunum endurgjaldslaust.

Hægt er að sækja um rafrænt með því að smella á þennan tengil og við hvetjum fólk til þess að ganga frá skráningum sem allra fyrst svo hægt sé að leggja lokahönd á að skipuleggja skólastarf vetrarins.
Veturinn leggst vel í okkur hér í Tónlistarskólanum og við hlökkum til að hitta nemendur eftir sumarfrí og takast í sameiningu á við fjölbreytt og skemmtileg verkefni á skólaárinu.