Ingunn Ósk Sturludóttir, söngkona og söngkennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar, er nú við æfingar í Reykjavík vegna tónleika sem verða í Langholtskirkju föstudagskvöldið 16.apríl kl. 20:00. Ingunn er ein af fjórum einsöngvurum sem flytja hina stórbrotnu Sálumessu Mozarts með kórnum Vox Academica og hljómsveit undir stjórn Hákonar Leifssonar. Aðrir einsöngvarar eru Þóra Einarsdóttir sópran, Gissur Páll Gissurarson tenór og Kristinn Sigmundsson bassi.
Tónlistarskóli Ísafjarðar óskar Ingunni Ósk innilega til hamingju og góðs gengis á tónleikunum. Vonandi nýta Vestfirðingar sem eru í Reykjavík þetta einstaka tækifæri til að heyra þetta dásamlega verk með frábærum kór og einsöngvurum.
Sálumessa Mozarts var flutt á Ísafirði vorið 2001 við stórkostlegar viðtökur áheyrenda. Flytjendur þá voru Hátíðarkór Tónlistarskóla Ísafjarðar undir stjórn Beötu Joó, Sinfóníuhljómsveit áhugamanna undir stjórn Ingvars Jónassonar og einsöngvararnir Guðrún Jónsdóttir sópran, Ingunn Ósk Sturludóttir alt, Snorri Wium tenór og Ólafur Kjartan Sigurðarson bassi. Verkið var þá flutt á föstudaginn langa í Ísafjarðarkirkju og nokkru síðar í Neskirkju í Reykjavík.