Ingunn Ósk ráðin skólastjóri til eins árs

24. ágúst 2013 | Fréttir

Sigríður Ragnarsdóttir skólastjóri hefur fengið námsleyfi í 12 mánuði frá 1.september nk. og nýtur á meðan námslauna úr Starfsmenntunarsjóði tónlistarskólakennara. Sigríður ætlar að halda áfram meistaranámi sínu í menningarstjórnun við Viðskiptaháskólann á Bifröst og einnig sækja námskeið við listkennsludeild Listaháskóla Íslands.

Í skólastjórastarfið hefur verið ráðin Ingunn Ósk Sturludóttir söngkona og kennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar til margra ára. Ingunn Ósk hóf ung píanónám við Barnamúsíkskólann í Reykjavík. Síðar stundaði hún nám við Söngskólann í Reykjavík og lauk þaðan 8.stigsprófi 1987. Um tveggja ára skeið stundaði Ingunn framhaldsnám í London hjá Valeri Heath-Davies og Sigríði Ellu Magnúsdóttur. Haustið 1989 hóf hún nám við Sweelinck-tónlistarháskólann í Amsterdam og lauk þaðan prófi frá óperu- og ljóðadeildum skólans 1992. Kennarar hennar þar voru Cora Canne-Mejer og Margret Honig. Ingunn hefur starfað sem söngkennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar um árabil en skólaárið 2011-2012 var hún í leyfi til að stunda nám við The Lichtenberg Institute for Functional Voice Training í Þýskalandi og stundar það nám enn meðfram starfi sínu. Ingunn hefur verið mjög virk í Félagi tónlistarskólakennara og m.a. setið í Fagráði félagsins undanfarin ár. Ingunn hefur haldið fjölda einsöngstónleika hér heima og erlendis, komið fram sem einsöngvari í flutningi stórra kórverka s.s. Messíasi, Sálumessu Mozarts, H-moll messu Bachs og vorið 2008 söng hún einsöngshlutverkið í Gloriu eftir Poulenc hér á Ísafirði með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Eftir að hún fluttist búferlum hingað vestur hefur hún verið mjög virk í tónlistarlífinu hér, kennt við Tónlistarskólann, sungið á tónleikum og við fjölda annarra tækifæra, stjórnað Sunnukórnum o.s.frv. Og hver man ekki eftir dásamlegu abbadísinni í Söngvaseið í meðförum Ingunnar vorið 2003?

Skólinn væntir sér mikils af störfum Ingunnar í vetur um leið og bestu óskir fylgja Sigríði í námi hennar.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur