Himneskir tónleikar!

18. mars 2009 | Fréttir

Oft er sagt að börn syngi eins og englar og að harpan sé himneskt hljóðfæri, sem englarnir leiki á og má sjá þessa merki í ótal listaverkum.

Á mánudagskvöldið kemur, 8.desember,  gefst Vestfirðingum einstakt tækifæri til að hlusta á slíkan englasöng og hörpuhljóma í Ísafjarðarkirkju. Það kvöld  kl. 20:00 verða tónleikar í Ísafjarðarkirkju undir yfirskriftinni   „SÖNGVASVEIGUR á aðventu“ og á dagskránni er einmitt kórsöngur barna og unglinga skreyttur himneskum hljómum hörpunnar.

Flytjendur á tónleikunum eru Sophie Schoonjans, harpa, Barnakór Tónlistarskóla Ísafjarðar, Stúlknakór Tónlistarskóla Ísafjarðar, Kvennakórinn Valkyrjurnar, Helga Margrét Marzellíusardóttir, sópran, Arna Björk Sæmundsdóttir, alt. Meðleikarar auk Sophie eru Hulda Bragadóttir, píanó/orgel og  Jónas Tómasson, flauta.

Stjórnandi er Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir og hefur hún borið mestallan hita og þunga af undirbúningi tónleikanna.
Á dagskránni eru hugljúf  jólalög og einleikur á hörpu, en meginefni tónleikanna er þó kórverkið  „A Ceremony of Carols“ eftir Benjamin Britten.

Britten var eitt af höfuðtónskáldum Breta á 20. öld. Eftir hann liggja ótal verk, stór og smá, en hann samdi talsvert af tónlist sérstaklega fyrir börn, m.a. verkið „A Ceremony of Carols“ . Það er skrifað fyrir 3 raddir og hörpu og inniheldur 11 lög, sem segja m.a. frá fæðingu frelsarans, boðun Maríu og freistingu Adams, en er fyrst og síðast lofgjörð til Guðs.
Aðgangseyrir að tónleikunum er kr. 1.000 en ókeypis f. börn 12 ára og yngri.