Helga Margrét syngur einsöng með Háskólakórnum

13. apríl 2012 | Fréttir

Ísfirðingurinn Helga Margrét Marzellíusardóttir, verður einsöngvari á vortónleikum Háskólakórsins í Neskirkju kl. 16 á morgun, laugardaginn 14.maí. Háskólakórinn er skipaður 60 nemendum úr öllum deildum Háskóla Íslands og þar á meðal eru nokkrir Vestfirðingar. Á efnisskrá tónleikanna eru einkum íslensk og ungversk kórlög enda undirbýr kórinn söngferðalag til Ungverjalands í sumar. Þá flytur kórinn verkið Hear my Prayer eftir Mendelssohn.  Stjórnandi Háskólakórsins er Gunnsteinn Ólafsson. 

Helga Margrét stundaði nám við Tónlistarskóla Ísafjarðar um árabil, einkum í píanóleik hjá Sigríði Ragnarsdóttur og söng hjá Ingunni Ósk Sturludóttur. Hún lauk framhaldsprófi í einsöng með glæsibrag vorið 2009 og sama haust hóf hún nám við Listaháskóla Íslands. Aðalkennari hennar þar er Elísabet Eringsdóttir prófessor, en Helga Margrét hefur auk einsöngsins lagt mikla áherslu á nám í kórstjórn og er kórstjóri Hinsegin kórsins.