Helga Kristbjörg hlýtur styrk úr Minningarsjóði Kristjáns Eldjárns

16. júní 2011 | Fréttir

Í dag á afmælisdegi Kristjáns Eldjárns, var úthlutað í þriðja sinni verðlaunum úr minningarsjóðnum við athöfn sem fram fór í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar. Verðlaunaféð nemur einni milljón króna. Verðlaunahafinn að þessu sinni er Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir harmonikuleikari frá Ísafirði.

Helga Kristbjörg er fædd á Ísafirði 1987 og ólst þar upp. Hún stundaði nám við Tónlistarskóla Ísafjarðar nær óslitið frá 1995-2007 þar sem aðalnámsgrein hennar var harmonikuleikur. Fyrstu árin naut hún leiðsagnar Messíönu Marsellíusdóttur en árið 1999 tók Vadim Fjodorov við harmonikukennslunni þar til 2006 þegar Hrólfur Vagnsson var kennari  hennar í einn vetur. Hún stundaði einnig píanónám um nokkurra ára skeið. Helga hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur í skólanum, m.a. verðlaun Ísfirðingafélagsins í Reykjavík vorið 2000 og aðalverðlaun skólans vorið 2004. Haustið 2004 stundaði Helga tónlistarnám í Frakklandi við tónlistarskólann Centre National & International de Musique & d’Accordéon (la CNIMA) þar sem aðalkennarar hennar voru J. Mornet, Roman Jbanov og Domi Emorine.

Helga Kristbjörg hefur komið fram sem einleikari á fjölda tónleika og við ótal önnur tækifæri, m.a. á landsmótum Sambands íslenskra Harmonikuunnenda en hún var valin harmonikumeistari S.Í.H.U. 2010. Hún hefur leikið með ýmsum samleikshópum og hljómsveitum, m.a. Sinfóníuhljómsveit Íslands. Helga hefur einnig starfað sem harmonikukennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar og Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. ?Vorið 2010 lauk hún B.Mus. prófi frá Listaháskóla Íslands þar sem hún nam undir handleiðslu Tatu Kantomaa og síðar Vadim Fjodorov. Einnig stundaði hún nám á píanó sem aukahljóðfæri um tveggja ára skeið hjá Peter Maté. Helga er fyrsti harmonikunemandinn sem útskrifast frá Listaháskóla Íslands og ein af örfáum hér á landi sem stundað hafa háskólanám í harmonikuleik. Eftir útskrift hlaut Helga styrk úr Styrktarsjóði Halldórs Hansen. Síðastliðin sumur hefur hún starfað við að kynna og leika íslenska tónlist fyrir farþega skemmtiferðaskipa sem heimsækja Ísafjörð. 

Auk þess að hafa starfað sem harmonikuleikari síðastliðinn vetur hefur Helga stundað nám í heimspeki við Háskóla Íslands og verið félagi í Háskólakórnum. Næsta vetur mun Helga Kristbjörg starfa sem harmonikukennari og undirbúa sig fyrir frekara tónlistarnám. 

Tónlistarskóli Ísafjarðar er afar stoltur af þessum nemanda sínum og sendir henni og fjölskyldunni bestu hamingju- og árnaðaróskir.

 

Tveir tónlistarnenn hafa áður hlotið styrk úr sjóðnum, Kristinn Árnason gítarleikari árið 2007 og Dsníel Bjarnason tónskáld og hljómsveitarstjóri árið 2009.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur