Þeir eru sannarlega fallegir haustdagarnir nú þegar skólar eru að hefjast, sumarfrí tekur enda og haustið byrjar með sínu daglegu skipulagi. Hér í Tónlistarskólanum eru kennarar mættir til leiks til að undirbúa veturinn og setja saman stundatöflur. Það er alltaf viss tilhlökkun að hitta aftur nemendur og kynnast nýjum. Nú er því tilvalinn tími til að dusta rykið af hljóðfærinu sínu (ef þið hafið ekki verið dugleg að spila í sumar) og rifja upp það sem gert var í fyrravetur.
Skólinn býður upp á fjölbreytt nám og í haust mun Skólakórinn taka aftur til starfa eftir árs hlé. Stjórnandi kórsins er Jórunn Björk Magnúsdóttir. Skólakórinn er ætlaður nemendum sem eru í 5 – 10 bekk grunnskóla og eru æfingar tvisvar í viku. Skólakórnum býðst að taka þátt í skemmtilegu verkefni nú í september þegar Baskasetrið í Djúpavík verður opnað. Meira um það þegar nær dregur. Barnakórinn verður einnig starfandi í vetur undir stjórn Dagnýjar Hermannsdóttur og æfir hann líka tvisvar í viku. Við hvetjum svo öll sem áhuga hafa á að starfa í kórunum að skrá sig með því að fara inn á heimasíðu skólans tonis.is. Við viljum líka vekja athygli á að boðið verður upp á forskóla I og II í vetur en kennari forskólans er Ásta Kristín Pjetursdóttir. Enn eru laus pláss og fer skráning fram inn á heimasíðu skólans, tonis.is.
Okkar árlega svæðisþing verður mánudaginn 25. ágúst en þá hittast kennarar á vestfjörðum, hlýða á fræðsluerindi og fá faglegar upplýsingar.
Skólasetning verður miðvikudaginn 27. ágúst kl. 18:00 í Hömrum, sal skólans. Öll eru hjartanlega velkomin.
Fyrsti kennsludagur er fimmtudagurinn 28. ágúst en tónfræði og hóptímar hefjast fyrstu vikuna í september.
Við sem störfum hér við skólann hlökkum til vetrarins og óskum þess að starfið verði nemendum bæði gefandi og ánægjulegt.
