Halldór Sveinsson kynnir vestfirska tónlist í lokaverkefni sínu

20. maí 2011 | Fréttir

Í dag, föstudaginn 20.maí,  lýkur röð útskriftartónleika tónlistardeildar Listaháskóla Íslands sem hefur staðið frá því mars s.l. en í vor útskrifar tónlistardeild Listaháskóla Íslands tuttugu og tvo nemendur flesta með bakkalárgráðu en einnig með meistargráðu og diplómapróf.

Í dag kl. 18.00 verður flutt lokaverkefni Halldórs Sveinssonar í Sölvhóli, tónlistarsal skólans. Hann útskrifast með BA gráðu í mennt og miðlun frá tónlistardeild Listaháskólans en vor er í fyrsta sinn verið að útskrifa með þá gráðu frá tónlistardeildinni.

 

Á efnisskránni er Tónlist úr Héraði sem er óhefðbundinn fyrirlestur þar sem áherslan er jöfn ef ekki meiri á lifandi tónlistarflutning en hið talaða mál. Fjallað verður um upphaf tónlistarmenningar á Vestfjörðum og þrætt í gegnum sögu hennar fram til dagsins í dag.  Flytjendur á tónleikunum eru auk Halldórs, Vestfirðingarnir Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir, Helga Margrét Marzellíusardóttir og Halldór Smárason. Einnig koma fram nokkrir nemendur úr tónlistardeild Listaháskólans þar á meðal unnusta Halldórs, Sigrún Harðardóttir fiðluleikari, sem einnig er að ljúka BA.prófi frá Listaháskólanum. 

 

Halldór Sveinsson er borinn og barnfæddur Hnífsdælingur, sonur hjónanna Ágústu Þórólfsdóttur og Sveins Guðjónssonar. Hann stundaði tónlistarnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar frá unga aldri, fyrst á fiðlu frá árinu 1995 hjá Janusz Frach, en síðar einnig á píanó hjá Beötu Joó. Hann lagði einnig ríka stund á bóklegar greinar, þar sem kennarar hans voru aðallega Jónas Tómasson og Iwona Frach. Halldór var alla tíð afar virkur í kammertónlist og hljómsveitarstarfi af fjölbreyttasta tagi við skólann og var fulltrúi skólans og Ísafjarðarbæjar við fjölmörg tækifæri. Þá kom hann oft fram fyrir hönd Menntaskólans á Ísafirði, m.a. í söngleikjauppfærslum skólans, en hann lauk stúdentsprófi frá MÍ vorið 2008. Halldór hélt glæsilega lokatónleika í Hömrum sama vor og lék þá bæði á fiðlu og píanó. Hann hlaut ýmsar viðurkenningar hér vestra fyrir frábæran árangur í tónlistarnáminu, m.a. verðlaun Ísfirðingafélagsins vorið 2007 og aðalverðlaun skólans vorið 2008. 

Haustið 2008 hóf Halldór nám í mennt og miðlun í Listaháskóla Íslands með Peter Maté sem aðalkennara hans á píanó. Hann hefur þó einnig haldið áfram að taka að sér fjölmörg verkefni á fiðluna ásamt því að spila með balkansveitinni Orphic Oxtra. 

 

 

Tónlistarskóli Ísafjarðar óskar Halldóri og fjölskyldu hans innilega til hamingju með áfangann sem hann lýkur í dag og óskar honum alls velfarnaðar á nýjum vettvangi um leið og skólinn þakkar honum ánægjulega samfylgd alla tíð.

 

 

 

.

 

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur