Næstkomandi sunnudag kl. 20 verða síðustu tónleikar vetrarins í tónleikaröð Tríós Reykjavíkur í Hafnarborg. Tríó Reykjavíkur er staðarkammerhópur Listaháskóla Íslands. Efnt var til samkeppni um verk til frumflutnings á tónleikunum meðal tónsmíðanema skólans. Verk eftir Halldór Smárason, ungan tónsmíðanema frá Ísafirði varð fyrir valinu. Verkið ber nafnið “Eflaust” og mun heyrast í fyrsta sinn á tónleikunum.
Halldór Smárason fæddist á Ísafirði 1989. Hann hóf tónlistarnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar sjö ára gamall og lauk framhaldsprófi í píanóleik samfara stúdentsprófi vorið 2009. Aðalkennari hans við skólann var Sigríður Ragnarsóttir. Haustið eftir stúdentspróf fluttist Halldór suður til Reykjavíkur og hóf nám við tónsmíðadeild Listaháskóla Íslands. Hann stefnir á að ljúka B.A.-gráðu í tónsmíðum vorið 2012.
Tónverkið Eflaust, með undirtitilinn gera allir einhverntímann hluti sem þeir síðar sjá eftir, var samið á haust- og vetrarmánuðum 2010. Verkið segir frá sögu ungs pilts sem fremur voðaverk og þeim persónulegu og samfélagslegu afleiðingum sem því fylgja. Í mati dómnefndar kemur fram að verkið innihaldi mjög góðar og frumlegar hugmyndir, bæði lagrænt og rytmískt; fjölbreytileiki og sterkar andstæður einkenni það. Jafnframt höfðaði sannfærandi heildarsvipur verksins sterkt til dómnefndar.
Tríó Reykjavíkur mun auk þess flytja tvö af öndvegisverkum tríóbókmenntanna og ber þá fyrst að nefna Erkihertogatríóið eftir Ludvig van Beethoven. Tríóið, sem er opus 97, var samið árið 1811, eða fyrir 200 árum. Verkið er frægasta píanótríó meistarans og er talið eitt fullkomnasta píanótríó sögunnar. Það var tileinkað Rudolf erkihertoga, sem var mikill velgjörðarmaður Beethovens. Einnig verður flutt tríó nr.2 í e-moll opus 67 eftir Dmitri Shostakovich. Það var samið árið 1944 og tileinkað fórnarlömbum stríðsins, einkum Gyðingum. Í verkinu eru Gyðingastef ásamt rússneskum efnivið. Meðlimir Tríós Reykjavíkur eru Peter Máté, píanóleikari, Guðný Guðmundsdóttir, fiðluleikari og Gunnar Kvaran sellóleikari.
Tónleikarnir hefjast kl. 20 og fara fram í Hafnarborg sem stendur við Strandgötu 34 í Hafnarfirði. Miðaverð er 2.400 kr. og miðasala fer fram í Hafnarborg. Miðapantanir í síma 585 5790 frá kl. 11-17. Einnig er hægt að kaupa áskriftarkort. Nánari upplýsingar er að finna hér:http://hafnarborg.is/Forsi