Glæsileg lokahátíð og skólaslit í kirkjunni

27. maí 2011 | Fréttir

Skólaslit og lokahátíð Tónlistarskóla Ísafjarðar voru haldin í Ísafjarðarkirkju í gærkvöld með miklum glæsibrag. Tónlistaratriðin voru einstaklega fjölbreytt og metnaðarfull, brot af því besta sem fram fer í skólanum.  Í upphafi lék Strengjasveit skólans tvö lög eftir ABBA-hópinn í útsetningu stjórnandans Janusz Frach.  Síðar kom saxófónkvartett og flutti syrpu af þekktum lögum með aðstoð hljómborðs og slagverks og var syrpan tekin saman og útsett af Madis Mäekalle. Bára Jónsdóttir lék hið fagra og sívinsæla Næturljóð Chopins í Es-dúr á píanóið og Maksymilian Frach lék einn þátt úr „Sumrinu“ úr Árstíðum Vivaldis á fiðlu við undirleik móður sinnar Iwonu Frach. Ýmsum náttúruhljóðum s.s. fuglasöng og þrumugný var blandað við flutninginn til að skapa þá náttúrustemmningu sem verkinu er ætlað að vekja. Flutningurinn á „Sumrinu“ vakti svo mikla hrifningu að Maksymilian lék aukalag, Kaprísu eftir Paganini. Í lok hátíðarinnar sungu kórar skólans tvö sumarlög undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttir og píanóleik Huldu Bragadóttur.

Skólastjóri, Sigríður Ragnarsdóttir, gerði grein fyrir skólastarfinu í vetur. Fram kom í máli hennar að þrátt fyrir minni aðsókn og síminnkandi fjárveitingar til kennslunnar, hefði skólaárið verið afar viðburðaríkt og mikill metnaður í skólastarfinu. Viðamesti viðburður ársins voru stórtónleikar í kirkjunni á Degi tónlistarskólanna í lok febrúar, en þar kom m.a. fram stórhljómsveit skólans „Ísófónía“ skipuð um 70 nemendum. 23 nemendur tóku áfangapróf við skólann í vetur, þar af 6 með ágætiseinkunnina 9 eða hærra. Skólastjóri fjallaði í ávarpi sínu einnig um mikilvægi tónlistaruppeldis og mikilvægi tónlistarinnar fyrir Ísafjörð. Jón Páll Hreinsson formaður Tónlistarfélags Ísafjarðar flutti einnig ávarp og ræddi samfélagslegt  hlutverk félagsins um leið og hann hvatti Ísfirðinga til að styðja við menningarlífið með því að sækja vel tónleika og aðra listviðburði í bænum.

Að venju voru veitt mörg vegleg verðlaun og viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og eru nánast öll verðlaunin gefin af einstaklingum og fyrirtækjum. Veitt voru verðlaun fyrir góðan árangur í tónfræðigreinum, nemendur sem sköruðu fram úr í útibúum skólans fengu viðurkenningar og einnig nemendur sem voru að kveðja skólann eftir áralangt og gott samstarf. Ísfirðingafélagið í Reykjavík hefur um árabil gefið skólanum vegleg peningaverðlaun til að veita framúrskarandi nemanda og þau verðlaun hlaut að þessu sinni Bára Jónsdóttir píanónemi. Þá veitir Tónlistarfélag Ísafjarðar árlega aðalverðlaun skólans, vegleg peningaverðlaun sem um langt árabil hafa verið gefin af Hraðfrystihúsinu Gunnvöru, og þau hlaut að þessu sinni hinn ungi fiðluleikari Maksymilian Frach.

Mikið fjölmenni var á lokahátíðinni og hinu fjölmarga unga listafólki sem þar kom fram afar vel fagnað. Í lokin stóðu viðstaddir á fætur og sungu sig saman inn í sumarið með sumarkveðjunni „Ó blessuð vertu sumarsól“.

 

Á myndinni tekur Bára Jónsdóttir við verðlaunum Ísfirðingafélagsin.

 

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is