Fréttabréf

9. október 2018 | Fréttir

Afmæli                                               

Þetta skólaár mun skólinn fagna 70 ára starfsafmæli. Í tilefni af þeim merkisatburði verður ýmislegt gert til þess að gleðjast á þessum tímamótum. Laugardagurinn 13. október verður helgaður afmælinu. Gleðin mun hefjast klukkan 11:45 með lúðraþyt af svölum skólans en formleg dagskrá afmælishátíðar í Hömrum hefst klukkan 12:00. Boðið verður upp á tónlistaratriði og veitingar fyrir afmælisgesti. Opið verður í húsakynnum Tónlistarskólans til klukkan 14:30. Hinir margrómuðu Heimilistónar verða endurvaktir þar sem nemendur skólans auk annarra gesta stíga á stokk í heimahúsum á eyrinni og nágrenni. Áætlað er að tónlistardagskráin hefjist klukkan 14:30 og standi til 16:30. Þeir nemendur sem munu taka þátt í tónlistarflutningnum fá nánari upplýsingar frá kennara sínum hvað varðar staðsetningu og annað þessu viðkomandi.

Dagana 11.-12. október verður kennsla með óhefðbundnu sniði, en þá munu kennarar fagna afmælinu með nemendum. Á sjálfan afmælisdaginn, fimmtudaginn 11. október, mæta nemendur klukkan 17:00 í Hamra, þar sem boðið verður upp á afmælisveitingar og stutta afmælisdagskrá fyrir nemendur skólans. Föstudaginn 12. október býður Tónlistarskóli Ísafjarðar þeim grunnskólanemendum sem stunda nám við skólann upp á spunagleði í Hömrum. Þetta verður framkvæmt á skólatíma í samvinnu við grunnskólann.

Tónfræðikennsla

Nú er kennsla í fyrsta hluta tónfræðinnar, Opus 1, fyrir nemendur í 4. bekk grunnskólans komin vel af stað. Þeir nemendur sem luku Opus 1 í hóptímum á síðasta skólaári sækja tíma í Hlustun og greiningu einu sinni í viku og hafa upplýsingar um tímasetningar verið sendar til forráðamanna. Kennsla í Hlustun og greiningu hófst síðastliðinn mánudag, þann 24. september.

Mögulegir tímar fyrir eldri hópa í Hlustun og greiningu I auk miðnáms- og framhaldshóps hafa verið auglýstir en hugsanlega þarf að hnika þeim til og skýrist það í þessari viku. Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir mun annast deildarstjórn tónfræðigreina á haustönn og ef einhverjar spurningar vakna bendum við ykkur á að senda tölvupóst á tonis@tonis.is

Kalli og sælgætisgerðin, barnaópera

Í nóvember verður barnaóperan Kalli og sælgætisgerðin eftir Hjálmar H. Ragnarsson sett upp í Hömrum. Sýningin er hluti af þeirri dagskrá sem hefur verið skipulögð til þess að fagna
70 ára afmæli skólans. Texti óperunnar er eftir Böðvar Guðmundsson og byggist á sögunni Charlie and the Chocolate Factory eftir Roald Dahl. Hún segir frá fjölskyldu Kalla sem lifir í mikilli fátækt, hinum stórkostlega sælgætisgerðarmanni Villa Wonka og fimm gullnum aðgöngumiðum sem fimm heppnum

börnum hlotnast til þess að líta augum ævintýrlega súkkulaðiverksmiðju hans. Tónlistarflutningur og umsjón með sýningunni er í höndum kennara og nemenda tónlistarskólans auk annarra góðra gesta. Sibylle Köll sér um sviðsetningu og sviðshreyfingar. Æfingar eru nú í fullum gangi og er mikil tilhlökkun í mannskapnum að stíga á svið í nóvember og flytja þessa skemmtilegu barnaóperu. Frumsýnt verður 25. nóvember.

Miklvægar dagsetningar:

Vetrarfrí verður dagana 18-19. október

Foreldradagar verða 22.-26. október. Kennarar munu sjá um að boða foreldra í viðtöl

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is