Frábær frammistaða píanónemenda

5. nóvember 2015 | Fréttir

Í gær og dag fór fram forkeppni í EPTA-píanókeppninni, sem haldin er á 3ja ára fresti í Salnum í Kópavogi á vegum Íslandsdeildar Evrópusambands píanókennara.
Sjö nemendur frá Ísafirði tóku þátt í keppninni að þessu sinni, allt nemendur Tónlistarskóla Ísafjarðar, og einn nemandi frá Tónlistarskólanum í Bolungarvík.  Öll stóðu þau sig afburða vel og hefur þessi mikla þátttaka héðan að vestan vakið mikla athygli. Síðdegis í dag var tilkynnt hverjir færu áfram í úrslit í hverjum flokki, en keppt er í mismunandi aldursflokkum.  Þrír ísfirskir tónlistarnemar komust áfram í flokknum 18 ára og yngri, það eru þau Anna Anika Jónína Guðmundsdóttir, Mikolaj Ólafur Frach og Pétur Ernir Svavarsson. Anna og Pétur eru nemendur Beötu Joó, en Mikolaj er nemandi Iwonu Frach.
Tónlistarskóli Ísafjarðar er auðvitað stoltur af þessum ótrúlega árangri tónlistarnemanna og sendir þeim hamingjukveðjur um leið og þeim fylgja bestu óskir um góðan árangur í úrslitakeppninni, sem fram fer á laugardaginn.
Á meðfylgjandi mynd má sjá þau Pétur, Önnu og Mikolaj, þegar úrslitin voru kynnt í dag.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur