Eftir að skólaárinu lauk brugðu kennarar Tónlistarskólans sér til Ungverjalands á þrjú námskeið. Það er hverjum starfsmanni mikilvægt að kynna sér aðferðir og nýja strauma í sínu fagi og víkka þannig sjóndeildarhringinn. Í því er fólgin endurnýjun á hug og sál og viðhorfum til starfsins með börnunum.
Við erum svo heppin að Bea Joó píanókennari er frá Szeged í Ungverjalandi og hún bauðst til að skipuleggja ferðina. Nýtti hún sér m.a. góð tengsl sín í Tónlistarskólanum í Szeged, Kiraly-König Péter Zeneiskola, til að koma á kynningum á forskólakennslu hjá Eszter Juhászné Bodrogközy, byrjendakennslu í hljóðfæranámi, þar sem kennarinn var Edina Szirmainé Szimon og tónfræðikennslu sem Dóra Kamenszky sá um. Skemmst er frá að segja að skipulagið var eins og best verður á kosið frá A til Ö og kunnum við okkar kæru Beu innilegar þakkir fyrir ótrúlega glæsilega vinnu, ásamt þeim Rúnu Esradóttur og Jóni Mar Össurarsyni, sem voru henni til fulltingis í ferðanefnd.
Það var einstaklega ánægjulegt að sitja þessar kynningar, öll kennsla er eins og leikur og í fullkomnu flæði, þannig að aldrei er gefinn kostur á að beina athyglinni annað. Nemendur eru vel þjálfaðir í að standa og sitja eins og fullorðið fólk. Forskólabörnin komu meira að segja í sparifötunum og höfðu meðal annars undirbúið að syngja fyrir okkur Fann ég á fjalli (Óskasteinar) á íslensku, en lagið er raunar ungverskt þjóðlag.
Kennaraferðir sem þessar eru ekki aðeins mikilvægar til að tileinka sér nýjar aðferðir og strauma, heldur skiptir máli að treysta vináttuböndin og efla liðsandann. Að loknum heimsóknum í Tónlistarskólann í Szeged hélt hópurinn til Búdapest og brá sér á tónleika í stórglæsilegum sal Franz Liszt akademíunnar, en þar var Sálumessa Mozarts á dagskrá í mikilfenglegum flutningi. Ekki síður datt af okkur andlitið þegar við komum í gulli prýddan sal Óperuhússins, sem er frá 1884, en þar var ballettinn Rómeó og Júlía eftir Prokofiev á dagskrá. Þessi sýning verður okkur ógleymanleg og ekki var hægt annað en að komast við í lokin, svo stórkostleg var tónlistin og ekki síður dansararnir.
Endurnærð og full eftirvæntingar förum við inn í sumarið og horfum með tilhlökkun til nýs skólaárs í haust.
Hinn átta ára Matias hóf píanónám í haust og Edina hefur náð undraverðum árangri með honum á aðeins hálfu ári í mörgu tilliti, slökun handleggja, áslætti, styrkleikabreytingum o.s.frv.