Einn fremsti hljóðfæraleikari heims leikur á Ísafirði

9. september 2009 | Fréttir

Einn fremsti hljóðfæraleikari heims, blokkflautuleikarinn Michala Petri, heldur tónleika ásamt eiginmanni sínum Lars Hannibal gítarleikara, í Hömrum fimmtudaginn 17.sept. kl. 20:00. Tónleikarnir, sem eru á vegum Tónlistarfélags Ísafjarðar, eru haldnir undir yfirskriftinni „Samræður snillinga" . Samfelld samræða – með sjálfum sér, með hvort öðru og við áheyrendur – er áríðandi hluti af flutningi þar sem tónlistin er ekki bara nótur á blaði.
Á efnisskránni eru verk eftir J.S. Bach, Antonio Vivaldi, Astor Piazzolla, Michölu Petri og marga fleiri.

Michala Petri blokkflautuleikari, er einn af fremstu hljóðfæraleikurum í heiminum í dag. Hún hefur komið fram á nærri fjögur þúsund tónleikum í fjórum heimsálfum og hlotið fjölmörg verðlaun fyrir leik sinn, m.a. dönsku Lumbye verðlaunin fyrir framlag sitt við að koma klassískri tónlist á framfæri við almenning. Listræn sköpun hennar og mikil færni hefur glatt og heillað áheyrendur um allan heim.

Lars Hannibal lærði á gítar við konservatoríið í Árósum og lútu hjá Toyohiko Satoh í Den Haag á árunum 1972-1980. Hann hefur aðallega unnið sem kammertónlistarmaður í samstarfi við tónlistarmenn um allan heim. Árið 1991 hlaut hann FTF menningarverðlaunin og árið 1993 Dansk Solist-Forbunds Jubilæums verðlaunin.

Samstarf þeirra Michölu Petri og Lars Hannibal, eiginmanns hennar, hófst árið 1992 með tónleikum í klaustrinu La Cartuja de la Sierra í Andalúsíu á Spáni. Síðan hafa þau leikið yfir þúsund tónleika saman í Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku, Japan, Kína og Kóreu. Efnisskrá þeirra spannar allt frá endurreisnartónlist, barokk, klassískri og rómantískri tónlist, til nútímatónlistar sem hefur verið samin sérstaklega fyrir þau. Þau hafa  gefið út geisladiskana Souvenir, Air og Kreisler Inspirations með rómantískum umritunum fyrir blokkflautu og gítar sem árið 2002 hlaut þýsku Grammy verðlaunin. Í nóvember 2006 stofnuðu þau eigið hljómlötufyrirtæki, OUR recordings, og gáfu út geisladiskinn Siesta með latin-skotinni tónlist. Í október 2009 kemur út diskurinn Café Vienna þar sem dúóið leikur tónlist frá dögum Beethovens.

Tónleikarnir eru áskriftartónleikar á vegum Tónlistarfélags Ísafjarðar og áskriftarkort gilda. Einnig eru seldir miðar við innganginn á kr. 1.500 og nemendur Tónlistarskóla Ísafjarðar 20 ára og yngri fá ókeypis aðgang.

Tónleikarnir eru haldnir í samvinnu við Félag íslenskra tónlistarmanna og Dansk Solist-forbund með styrk frá Norræna menningarsjóðnum og Dansk-íslenska samstarfssjóðnum.