Tónlistarskólar landsins helga sér einn dag árlega til að minna á tilveru sína. Það gera þeir með opnum húsum, opinni kennslu, tónleikum, sérstökum kynningum og ýmiskonar gjörningum. Eins og aðrir skólar í þessu landi þurfa tónlistarskólarnir að sætta sig við lækkandi framlög. Til að bregðast við þessu taka kennarar og nemendur nú höndum saman um að vinna gott starf. Í andstreymi líðandi stundar er að ýmsu að hyggja. Margir eiga í vanda og framtíðin er óviss. Tónlist er meðal tækja samfélagsins til að bregðast við erfiðleikum, því tónlist eykur kjark og sefar kvíða. Með söng og spili verður róðurinn léttari og skemmtilegri. 26 tónlistarskólar opna dyr sínar í tengslum við daginn. Á heimasíðu hvers tónlistarskóla og Samtaka tónlistarskólastjóra www.samtok.net má finna nánari upplýsingar.
Tónlistarskóli Ísafjarðar heldur upp á Dag tónlistarskólanna með miðsvetrartónleikum, skólatónleikum og ýmsum fleiri uppákomum í lok febrúar og byrjun mars.