Dagur tónlistarskólanna – góð tónlistarhelgi á Ísafirði!

28. febrúar 2011 | Fréttir

Dagur tónlistarskólanna var haldinn hátíðlegur um síðustu helgi á Ísafirði eins og svo víða um landið.
Tónlistarskóli Ísafjarðar stóð fyrir viðamikilli dagskrá, tvennum tónleikum og þátttöku í guðsþjónustu í Ísafjarðarkirkju.
Fimmtudagskvöldið 24.febrúar voru haldnir nemendatónleikar í Hömrum fyrir troðfullu húsi áheyrenda. Á dagskránni var einleikur og samleikur, nýtt og gamalt í bland á ýmis hljóðfæri. Á laugardeginum voru svo haldnir stórtónleikar í Ísafjarðarkirkju, þar sem fram komu kórar og hljómsveitir á vegum skólans í dagskrá sem var á léttu nótunum. Mesta athygli á tónleikunum vakti hljómsveit sem sett var saman sérstaklega af þessu tilefni og hlaut heitið „ÍSÓFÓNÍA“ en í henni voru tæplega 70 hljóðfæraleikarar á ýmis hljóðfæri, hljómborð, harmóníku, gítar, bassa, fiðlu, blásturshljóðfæri og trommur. Stúlknakór skólans kom fram með hljómsveitinni í nokkrum lögum, m.a. Jungle Drum eftir Emiliana Torrini. Húsfyllir var í kirkjunni og gífurleg stemmning og var öllu hinu unga listafólki vel fagnað í lokin.

Á sunnudagsmorgun sungu síðan barnakór og Stúlknakór skólans við guðsþjónustu í Ísafjarðarkirkju.

 

Ætla má að virkir þátttakendur í Degi tónlistarskólanna hér á Ísafirði hafi verið hátt í tvö hundruð talsins, en tónleikagestir á báðum tónleikunum verið á fimmta hundrað.

 

Góð tónlistarhelgi!

 

Myndina tók Halldór Sveinbjörnsson á tónleikunum í kirkjunni.