Dagur tónlistarskólanna á léttu nótunum!

18. febrúar 2011 | Fréttir

Stór tónlistarhátíð á léttu nótunum er framundan á Ísafirði í tilefni af Degi tónlistarskólanna, en um næstu helgi verður hann haldinn hátíðlegur um land allt til að vekja athygli almennings og stjórnvalda á því mikla starfi, sem fram fer í tónlistarskólum.
Í Tónlistarskóla Ísafjarðar verður af þessu tilefni blásið miðsvetrartónleika en þeir hafa verið haldnir í skólanum svo  lengi sem elstu menn muna.

Tónleikarnir á Ísafirði verða tvennir með afar fjölbreyttri dagskrá,
Fyrri tónleikarnir verða í Hömrum fimmtudaginn 24.febrúar kl. 19:30. Þar koma fram um 80 nemendur á ýmis hljóðfæri. Á dagskránni kennir margra ólíkra grasa, gömul tónlist og ný, klassísk og poppuð, einleikur og samleikur. ´
Síðari tónleikarnir verða í Ísafjarðarkirkju kl. 14:00 laugardaginn 26.febrúar. Þar koma fram stærri hópar, m.a. barnakór, þrjár lúðrasveitir, gítarsveit og einnig verða atriði úr Samféskeppninni sem nýlega fór fram. Loks kemur Stórhljómsveitin „Ísófónía“  fram á tónleikunum, en hún var var sett saman sérstaklega af þessu tilefni. Sveitin er skipuð 60-70 hljóðfæraleikurum á öll möguleg hljóðfæri og stjórnandi er Madis Mäekalle. „Ísófónían“ flytur þekkt lög á borð við Þú komst við hjartað í mér og Jungle Drum og Stúlknakór skólans syngur lögin með sveitinni.

Markmið beggja tónleikanna er vissulega að kynna hið viðamikla starf sem fram fer í Tónlistarskóla Ísafjarðar en um leið og ekki síður að kennarar og nemendur skemmti sér og öðrum með fjölbreyttum tónlistarflutningi á léttu nótunum.

 

Dagur tónlistarskólanna er sameiginlegt kynningarverkefni tónlistarskólanna og er það kynnt undir einkunnarorðinu „Tónlistarskólarnir“. Í landinu eru nú 88 tónlistarskólar. Hjá þeim starfa 892 kennarar og nemendur eru 15.055 talsins. Fyrstu lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla voru sett 1963, en nú starfa skólarnir samkvæmt lögum nr. 75 14. júní 1985 og námskrám sem menntamálaráðuneytið gefur út. Í skólunum eiga nemendur kost á fjölbreyttu tónlistarnámi. Skólarnir gegna miklu hlutverki í menningarlífi viðkomandi byggðarlaga.