Dagur tónlistarskólanna 23.febrúar

15. febrúar 2013 | Fréttir

Dagur tónlistarskólanna verður haldinn hátíðlegur víða um land laugardaginn 23.febrúar nk .Af þessu tilefn efnir Tónlistarskóli Ísafjarðar til tvennra nemendatónleika í næstu viku.
Fimmtudaginn 21.febrúar kl.19:30 verða viðamiklir tónleikar í Hömrum þar sem fram koma nemendur á ýmis hljóðfæri. Á dagskránni kennir margra ólíkra grasa, gömul tónlist og ný, klassísk og poppuð, einleikur og samleikur. Allir eru hjartanlega velkomnir á tónleikana.
Síðari tónleikarnir verða í Ísafjarðarkirkju kl. 14:00 laugardaginn 23.febrúar. Þar koma fram stærri hópar, m.a. kórar skólans, þrjár lúðrasveitir, strengjasveit auk þess sem atriði úr Samféskeppninni sem nýlega fór fram verður á dagskránni. Loks kemur Stórhljómsveitin „Ísófónía“ fram á tónleikunum, en hún var sett saman sérstaklega af þessu tilefni. I Ísófóníunni eru nemendur á öll möguleg hljóðfæri á ýmsum stigum tónlistarnáms og með henni syngja líka kórar skólans. Þau flytja þrjú verk sem voru sérstaklega útsett fyrir hljómsveitina og kórana fyrir þessa tónleika.
Markmið beggja tónleikanna er vissulega að kynna hið viðamikla starf sem fram fer í Tónlistarskóla Ísafjarðar en um leið og ekki síður að kennarar og nemendur skemmti sér og öðrum með fjölbreyttum tónlistarflutningi á léttu nótunum.