BLÓMATÓNAR í Hömrum á miðvikudagskvöld kl. 20:00

28. febrúar 2011 | Fréttir

Nk.miðvikudagskvöld 2.mars kl. 20:00 halda þau Herdís Anna Jónasdóttir sópran og Semjon Skigin píanóleikari  tónleika í Hömrum undir yfirskriftinni „Blómatónar“ .

Á fjölbreyttri efnisskránni eru ljóðasöngvar eftir Grieg, Schumann, R. Strauss, Debussy, Rachmaninov, Rimsky-Korsakov og Guastavino, sem allir eiga það sameiginlegt að fjalla um blóm.
Tónleikarnir eru 4.áskriftartónleikar Tónlistarfélagsins á yfirstandandi starfsári og áskriftarkort gilda  því á tónleikana. Einnig verða seldir aðgöngumiðar við innganginn, miðaverð er kr. 2.000, kr.1.500 fyrir lífeyrisþega, en ókeypis fyrir skólafólk 20 ára og yngra.

 

Herdís Anna Jónasdóttir er fædd og uppalin á Ísafirði, þar sem hún lagði stund á fiðlu-, píanó- og söngnám. Að loknu stúdentsprófi hélt söngnámið áfram við Listaháskóla Íslands hjá Elísabetu Erlingsdóttur og lauk hún þaðan B.Mus.prófið vorið 2006. Þá lá leiðin til Berlínar þar sem hún stundaði nám við Hanns Eisler tónlistarháskólann hjá Brendu Mitchell og Juliu Varady. Sumarið 2010 lauk Herdís Anna Diplom-prófi frá skólanum, en fékk inngöngu í Konzertexamen-nám við sama skóla sem hún stundar nú ásamt því að starfa sem söngkona. Herdís hefur komið víða fram bæði hér heima og í Þýskalandi, bæði á tónleikum og í óperuuppfærslum. Á vegum Hanns Eisler tónlistarháskólans söng hún m.a. Zerlinu (Don Giovanni), Adele (Leðurblakan) og Romildu (Xerxes). Í Komische Oper í Berlín söng hún lítið hlutverk í L’enfant et les sortiléges og við Neuköllner Oper hefur hún sungið nokkur hlutverk, m.a. Mélisande (Pelléas et Mélisande) og Blumenmädchen (Mitleid nach Wagners Parsifal!). Herdís Anna söng hlutverk Paminu (Töfraflautan) á Fjölskyldu- og skólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í október sl. Framundan eru ýmis verkefni, ber þá helst að nefna aðalhlutverk í barnaóperunni Eisenhans við Staatsoper Berlin í maí. Herdís er tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna í flokknum  Bjartasta vonin árið 2010.

 

Semjon Skigin fæddist í Leníngrad (nú Sankti Pétursborg) og stundaði tónlistarnám við tónlistarháskólann þar í borg. Árið 1972 kom hann fram sem einleikari með Leníngrad Fílharmóníunni, og þremur árum síðar hlaut hann fyrstu verðlaun í alþjóðlegri keppni fyrir píanómeðleik í Ríó d Janeiro. Semjon Skigin er einkum þekktur sem ljóðapíanisti og eftir hann liggja ófáar upptökur og hljómdiskar, þar á meðal „Great Edition of Russian Songs" sem inniheldur alla ljóðasöngva Tchaikovsky, Mussorgsky, og Glinka. Þessir hljómdiskar hlutu Gramophone Award árið 1995 og Cannes Award ári síðar. Semjon Skigin er mikils metinn sem kennari. Hann var gestaprófessor við tónlistarháskólann í Dresden 1978- 1981, og frá árinu 1990 hefur hann gegnt prófessorsstöðu við Hanns Eisler tónlistarháskólann í Berlín sem meðleikari. Einnig kennir hann reglulega masterklassa við marga helstu tónlistarháskóla í Þýskalandi, Hollandi og Bandaríkjunum. Semjon Skigin er afar eftirsóttur sem meðleikari og kemur fram víða um heim með þekktum söngvurum, s.s. Olaf Bär, Cheryl Studer, Robert Holl, Olga Borodina og Sergei Leiferkus. Þá er hann listrænn stjórnandi Theaterkahn í Dresden, og Berliner Salon.

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is