Beata Joó

24. janúar 2022 | Fréttir

Beata Joo

Beata Joó

Ó hún Bea. Mikið lán var það fyrir Ísafjörð þegar Beata Joó ákvað að setjast hér að og helga samfélaginu starfskrafta sína. Hún hefur auðgað tónlistarlífið á Ísafirði sl. áratugi. Ekki aðeins hefur hún fóstrað óteljandi píanónemendur af sinni einstöku alúð, heldur hefur hún verið organisti, kór- og tónlistarstjóri í stærri verkum o.m.fl.

Bea hefur gaman af að gera grín að viðureign sinni við tungumálið. Einu sinni var hún með lúðu í matinn fyrir gestina sína og sagði þeim að það væri steiktur lúði í matinn. Í sumar var Aron sonur hennar nýbúinn að setja upp hengirúm í garðinum, þegar við Albert komum í heimsókn. Hún sýndi okkur rúmið og spurði í leiðinni hvort við vildum ekki prófa að hengja okkur. Úr þessu urðu nokkur bakföll af hlátri.
Hún gæti skrifað heila bók af slíkum skemmtisögum. Það ætti hún eiginlega að gera, því að hún er fjölhæfur listamaður og er t.d. fantagóður penni.

Einu sinni var Bea að tala við Agötu systur sína í símann og sagðist vera á leiðinni út. Þegar hún var komin út að bíl, segir hún: Ó, ég gleymdi símanum inni. Síðan fór hún inn og leitaði hátt og lágt að símanum, en var allan tímann með símann á eyranu að tala við Agötu. Svona sögur framkalla hlátur í þrívídd. Þá hlær hún sem sagt svo dátt að fótleggirnir lyftast í hnjáhæð og höfuðið hristist upp og niður frá hnjám. Það er alveg óborganlegt að hlæja með Beu, enda kann hún þá list að gera mest grín að sjálfri sér.

Það er gaman að fylgjast með Beu vinna með nemendum sínum, því að allt virðist verða að leik, en á listilegan hátt slær hún um leið hvergi af kröfum. Þannig finnst börnunum eins og þau séu að skemmta sér, en verða ekki vör við að þau eru að vinna hörðum höndum. Enda er árangurinn eftir því – frábær.

Já, við erum sannarlega heppin að hafa svo frábæran kennara í okkar röðum, en að auki er hún glæsilegur gestgjafi og hefur einkar gaman af að bjóða í ungverskan mat, sem er að sjálfsögðu sá besti, „eins og allt sem er frá Ungverjalandi komið“, segir hún með glettni í augum og hlær. En sannast sagna er varla hægt að hugsa sér hlýlegri matmóður, það er eins og hún geti galdrað fram notalegan og ljúffengan mat úr hversdagslegustu hráefnum.

Sjáið bara paprikukjúklinginn og ungversku núðlurnar með gúrkusalati.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur