Árnað heilla

31. október 2019 | Fréttir

Sigríður Ragnarsdóttir fyrrverandi skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar fagnar sjötíu ára afmæli í dag. Tónlistarskóli Ísafjarðar hefur verið hluti af lífi Sigríðar allt frá bernsku hennar og hún var sannarlega hluti af því magnaða starfi sem unnið var við Tónlistarskólann þau 45 ár sem hún vann þar, en hún lét af störfum vorið 2016. Hún var aðeins 23 ára þegar hún var ráðin kennari við skólann sennilega hefur hana ekki grunað þá, að lífsstarf hennar væri ráðið. Hugur Sigríðar stóð til akademísks náms enda menntuð í klassískum fræðum, en tónlistin er henni í blóð borin og sennilegt má telja að örlög hennar hafi verið ráðin strax í móðurkviði því eins og flestir vita fór starf Tónlistarskólans meira og minna fram á heimili foreldra hennar, þeirra Ragnars H. Ragnar og Sigríðar Jónsdóttur. Samæfingar alla sunnudaga, tónfræðikennsla í borðstofunni, píanókennsla í stofunni, vafalaust er það einmitt þess vegna hversu mjög málefni Tónlistarskólans hafa brunnið á Sigríði. Hún tók við stjórn Tónlistarskólans árið 1984 og einkenndist skólastjóratíð hennar af kraftmiklu starfi. Hún byggði alla tíð á þeim góða grunni sem Jónas Tómasson og foreldrar hennar Ragnar og Sigríður lögðu svo vel á undan henni en innleiddi margar spennandi nýjungar í skólastarfið. Sigríður var alla tíð opin fyrir nýjungum í skólastarfi og afar frjó í hugsun. Hún tók hugmyndum opnum huga vóg þær og mat og innleiddi þær síðan af krafti. Sannarlega mikil skólakona lét og lætur sig varða alla skólamálaumræðu. Sigríður treysti ávallt kennurum sínum hvatti þá og studdi til góðra verka án þess að missa sjónar á markmiðum skólans.
Við sameiningu sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum árið 1996 var það henni kappsmál að Tónlistarskóli Ísafjarðar sinnti tónlistarkennslu á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri og varð raunin sú að stofnuð voru útibú sem starfa með miklum blóma enn í dag. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að telja upp öll þau góðu störf sem Sigríður hefur unnið fyrir skólann og samfélagið allt hér vestra. Þau hjón Sigríður og Jónas Tómasson hafa verið sannkallaðir máttarstólpar í menningarlífi á Vestfjörðum og saman hafa þau unnið samfélaginu ómetanlegt starf sem seint verður fullþakkað.
Um leið og við í Tónlistarskóla Ísafjarðar óskum SIgríði innilega til hamingju með sjötugsafmælið viljum við nota tækifærið og þakka henni fyrir störf hennar en ekki síður vináttuna sem hún hefur alla tíð sýnt starfsfólki skólans. Skál fyrir gleðinni!

-Ingunn Ósk Sturludóttir

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is