Andri Pétur

28. janúar 2022 | Fréttir

Andri Pétur Þrastarson

Andri Pétur

Andri Pétur á ótrúlega auðvelt með að sjá eitthvað skondið við hversdagslegustu hluti. Þegar hann kemur inn í kennarastofuna, má alltaf búast við því að hann láti fínlega athugasemd falla sem hægt er að veltast um af hlátri yfir (engin pressa Andri minn).  Hann er sem sagt húmoristi af guðs náð.

Andri Pétur er líka ljúflingur út í gegn. Það uppgötvaðist strax þegar hann tók þátt í Söngvaseið í bernsku. Litli vatnsgreiddi strákurinn var hvers manns hugljúfi. Eftir honum var tekið fyrir fallega rödd og tónvissu.

Andri Pétur kennir raftónlist og gítarleik við skólann og gægist þarna upp úr græjunum, sem fylla stofuna hans, en einmitt í þessari stofu hóf hann snemma tónlistarnám og lærði á fiðlu hjá Janusz Frach. Þó að Andri sé mikill græjukall, er hann nýtinn, eins og sést á því að hægra megin glittir í kartöflukassa úr Húsmæðraskólanum Ósk sem hann notar til að leggja ýmislegt frá sér.

Andri fæddist í Keflavík og fyrstu árin átti fjölskyldan heima rétt hjá Pylsuvagninum. Þegar hann komst til vits, fannst honum gaman að fá franskar með „kortersósu og hálfan metra af kók“. Þetta breyttist þegar hann kom 6 ára til Ísafjarðar. Fyrst átti fjölskyldan heima inni í firði, þar sem enginn var Pylsuvagninn og það kom í veg fyrir að Andri yrði eins og gítar í laginu. Í staðinn tók hann seinna gítarinn í fangið og varð óþreytandi að spila í hljómsveitum af ýmsu tagi. Aldrei fór ég suður hefur oftar en ekki verið vettvangur hans fyrir tónlistarsköpun.

Sem stendur er hann í hljómsveitinni Gosa með Mörtu Sif, konunni sinni, þar sem þau nota m.a. tóngervla, spila og syngja. Marta hefur tekið sér listamannsnafnið Mysterious Marta og rekur verslunina Litla Sif, þar sem hún endurnýtir gömul föt og saumar úr þeim hrikalega krúttleg barnaföt. Skapandi par!

Andri fór á nokkur dellutímabil á unglingsárunum, lék sér á snjóbretti og hjólabretti, fékk kvikmyndadellu og tók óteljandi myndbönd af brettalistum.

Þegar Andri var lítill, var hann mikill snyrtipinni , vildi helst alltaf vera í fínni skyrtu. Þetta breyttist þó um tíma á unglingsárunum þegar hann fór á pönktímabilið og Kurt Cobain varð aðalátrúnaðargoðið. Þá vakti hann athygli fyrir ósamstæða ullarsokka, rifin föt og eyeliner. En þetta stóð nú ekki lengi og alltaf mætir hann snyrtilegur, hógvær í fasi og indæll í skólann. Við elskum Andra!

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is