Aldrei fór ég suður í tuttugu ár

31. mars 2024 | Fréttir

Aldrei fór ég suður er tónlistarviðburður í heimsklassa og trúlega átta skipuleggjendur og flytjendur sig ekki á hvað þetta gerir fyrir lítið samfélag sem breytist í heimsborg í nokkra daga. Við máttum til með að þakka þeim fyrir með því að bjóða öllum að skoða skólann, þiggja veitingar og taka lagið. Það var sérlega ánægjuleg stund sem einkenndist af þeirri samkennd sem einkennir þessa hátíð svo ríkulega. Takk fyrir okkur!

Aldrei fór ég suður í tuttugu ár

Dymbilvikan og páskarnir hafa verið viðburðarík. Halldór Smárason og Sæunn Þorsteinsdóttir voru með Tónlistarfélagstónleika í Hömrum daginn fyrir skírdag, unaðslegur spuni og einungis kertaljós í salnum, yndisleg stemning.

20 ára afmæli Aldrei fór ég suður var stórglæsilegt. Það var engin leið að fylgjast með öllum „off venue“ tónleikum, en af þeim má nefna GDRN og Magnús Jóhann sem áttu hvert bein í áheyrendum í kirkjunni á skírdag, – Salóme Katrínu, Nönnu, Unu Torfa og Rakel, ásamt úrvals hljóðfæraleikurum í Tjöruhúsinu á laugardag, m.a. tríói Tuma Torfa, kærasta Salóme Katrínar og bróður Unu. Áheyrendur voru sömuleiðis algjörlega uppnumdir á þessum tónleikum. Skemmutónleikarnir í Kampa á föstudag og laugardag voru svo stórkostlegir. Hversu góð tilfinning er að njóta með bæjarbúum í hátíðarskapi, sálnabræðingi og bræðralagi, eins og Dagga vinkona í Súðavík lýsti því.

Aldrei fór ég suður er tónlistarviðburður í heimsklassa og trúlega átta skipuleggjendur og flytjendur sig ekki á hvað þetta gerir fyrir lítið samfélag sem breytist í heimsborg í nokkra daga. Við máttum til með að þakka þeim fyrir með því að bjóða öllum að skoða skólann, þiggja veitingar og taka lagið. Það var sérlega ánægjuleg stund sem einkenndist af þeirri samkennd sem einkennir þessa hátíð svo ríkulega.

Takk fyrir okkur!

Það voru mikil fagnaðarlæti eftir flutning Lúðrasveitar Tónlistarskólans. Sveitin flutti nokkur lög í upphafi Aldrei fór ég suður undir öruggri stjórn Madisar. Það eru 78 ár á milli yngsta meðlimsins, hans Kára okkar, og þess elsta, Baldurs Geirmundssonar.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur