Albertína Elíasdóttir heldur píanótónleika í Hömrum að kvöldi uppstigningardags 13. maí kl. 20:00. Tónleikarnir eru liður í 8.stigsprófi Albertínu. Á efnisskránni eru verk eftir Liszt, Bach, Beethoven, Chopn og Gershwin. Allir eru velkomnir á tónleikana.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir var aðeins sex ára að aldri er hún kom í fyrsta píanótímann hjá Elínu Jónsdóttur í Tónlistarskóla Ísafjarðar. Albertína tók strax miklu ástfóstri við píanóið og þau ár sem hún hefur verið á Ísafirði hefur hún alltaf sótt tíma hjá Elínu. Albertína sótti einnig tíma í einsöng hjá Guðrúnu Jónsdóttir og lauk fyrsta stigs prófi. Þá lagði Albertína stund á bóklegar greinar, tónfræði, hljómfræði og tónheyrn og tónlistarsögu og voru kennarar hennar í þeim greinum einkum Elín Jónsdóttir, Sigríður J. Ragnar, Jónas Tómasson og Hjálmar H. Ragnarsson
Albertína hefur alla tíð verið mjög virk í skólastarfinu, komið fram á á fjölda tónleika, bæði ein og með öðrum. Vorið 2007 hélt hún tónleika í Hömrum ásamt Bryndísi Guðmundsdóttur þar sem þær léku saman og sín í hvoru lagi. Hún hefur verið virkur þátttakandi á ýmsum tónlistarnámskeiðum, m.a. námskeiðum í tónlistarmiðlun hjá Gunnari Benediktssyni og master-class námskeiðum í píanóleik hjá Ilonu Lucz, Peter Maté o.fl.. Albertína hefur einnig hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir mjög góðan námsárangur í tónlistarnáminu, m.a. aðalverðlaun Tónlistarskóla Ísafjarðar vorið 1998.
Á síðustu arum hefur Albertína fengist talsvert við organistastörf í nokkrum kirkjum hér vestra og stefnir hugur hennar æ meira í þá átt.
Albertína lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2000 og BA námi í frélagsfræði frá Háskóla Íslands árið 2005. Hún starfar nú sem verkefnastjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða, auk þess að leggja stund á meisteranám í landfræði við Háskóla Íslands.