Albert Eiríksson

2. ágúst 2022 | Fréttir

Albert Eiríksson

Albert Eiríksson

Þegar Albert byrjaði sem aðstoðarskólastjóri í Tónlistarskólanum var hans fyrsta verk að skipuleggja kaffimeðlæti á kennarafundum, sem fara fram vikulega. Í skólann kom vöfflujárn og eldavél og allt í einu var daglegt brauð að finna bökunarlykt á ganginum í skólanum. Albert vill nefnilega hafa notalegt og heimilislegt fyrir alla. Albert átti líka frumkvæði að því að koma sýningu á fót um Húsmæðraskólann Ósk og námsmeyjar sem voru í skólanum í denn eru hæstánægðar með að geta komið í skólann og skoðað muni sem tengjast starfinu í gamla skólanum þeirra.

Albert er úr sveit, reyndar frá Fáskrúðsfirði, sem sagt alveg hinum megin á landinu. Í sveitinni þýðir ekkert að deyja ráðalaus og það má heita víst að Albert sé alltaf með nagla í vasanum og hitt og þetta annað sem þarf til að dytta að hlutunum. Hann kann að róa út á sjó, eltast við hrúta, mjólka kýr o.s.frv. Konum í sveitinni þótti sérlega gaman að gefa þessum líflega og hraustlega krakka að borða og því má segja að framhaldið hafi legið beint við. Hann fór í kokkaskólann og lærði líka hárgreiðslu. Þannig fór hann að klippa hár og svo auðvitað búa til alls kyns fastar fléttur, drottningargreiðslur og hvað þetta heitir nú allt saman, en líka vann hann lengi við að búa til mat.

Í framhaldinu hefur hann svo haldið úti bloggsíðu sem heitir alberteldar.is Þar má t.d. finna hið fræga rabarbarapæ, sem hann bakaði á hverjum degi í 10 sumur á sýningu sem hann setti upp um franska sjómenn við Íslandsstrendur. Það er ein vinsælasta færslan hans, því að allir geta gert þessa uppskrift og henni má breyta á ýmsa vegu eftir því sem ímyndunaraflið býður manni, nota epli, kókos, kanel, hvað sem er. Fjölmargt fleira má finna á síðunni, t.d. kaffi hjá kvenfélögum á Vestfjörðum og ljúfmeti Ísfirðinga, Flateyringa, Suðureyringa og Þingeyringa. Allt að 10 þúsund manns streyma um síðuna hans Alberts daglega og þegar hann er ekki í vinnunni, er það líf hans og yndi að setja inn nýjar færslur með uppskriftum, heimsóknum til fólks, borðsiðum og mörgu fleiru.

Albert vann lengi á skrifstofunni í Listaháskólanum og því má segja að hann hafi ekki þurft að hafa neitt fyrir því að gerast aðstoðarskólastjóri hér fyrir vestan. Hann er líka uppáhaldsfrændi allra litlu krakkanna í fjölskyldunni sinni og því er honum því einstaklega auðvelt að umgangast börn. Mikið vorum við heppin að klófesta hann Albert.

 

Albert og Geirþrúður skoða sýninguna um Húsmæðraskólann Ósk, en hún útskrifaðist úr skólanum árið 1952

 

Albert og Bergþór í kennaraferð Tónlistarskólans fyrir utan óperuna í Búdapest

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is