Ágústa Þórólfsdóttir

28. janúar 2022 | Fréttir

Ágústa Þórólfsdóttir

Ágústa Þórólfsdóttir

Ágústa Þórólfsdóttir, píanókennari, hefur verið viðloðandi Tónlistarskólann síðan 1983. Það segir sitt um trygglyndi hennar, enda tekur hún utan um nemendur sína af einstakri alúð og umhyggju.

Það er allt svo hlýlegt við Ágústu. Ímyndið ykkur bara fjölskyldumálsverð þar sem bornir eru fram steiktir, saltaðir þorskhnakkar úr Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal, með grænmetisrjómasósu. Og svo gamli, góði Dísudraumurinn á eftir, marengs og svampbotn með súkkulaðikremi. En hann er í sérstakri útfærslu, því að hún setur alltaf kokteilávexti í rjómann. Sumum finnst það kannski guðlast, en Ágústa segir að þau njóti þess guðlasts! Tertan kallast Gústudraumur.

Fjölskyldan á hug hennar allan, Spánarferðirnar eru ómissandi og hún elskar að keyra út og suður og skoða landið. Þá er nú ekki verra að renna í gegnum Fáskrúðsfjörð og Stöðvarfjörð, enda er hún uppalin á Fáskrúðsfirði. Þar byrjaði hún að læra á píanó 9 ára gömul hjá Steingrími Sigfússyni.

Á unglingsárunum var Ágústa í námi fyrir sunnan, ekki bara í píanói, heldur líka söng hjá Ástu Thorsteinson. Síðan hefur söngur alltaf skipað sinn sess í hjarta hennar, allt kórastarfið, m.a. Söngfélagið í Neðsta og á tímabili stjórnaði hún Kór eldri borgara og naut þess út í ystu æsar.

Meðan Ágústa var í námi, skellti hún sér vestur, 17 ára, í fisk og þar voru örlögin ráðin, því að Svenni kom inn í líf hennar. Síðan hafa þau arkað saman götuna fram eftir veg í gegnum súrt og sætt, en þó aðallega sætt!

Henni hefur alltaf liðið vel hér fyrir vestan, enda er glugginn út í heim gjarnan galopinn, heimsóknir stórlistamanna eru forréttindi, nú síðast Víkings Heiðars, en þar hljóp aldeilis á snærið fyrir Ágústu, þar sem Debussy var á dagskrá. Debussy er nefnilega í uppáhaldi og ef hún vill virkilega njóta lífsins, setur hún Clair de lune í græjurnar. Prófið bara að leita það uppi á youtube eða strreymisveitu og gleymið ykkur í hlýja andrúmsloftinu sem alltaf ríkir í kringum hana Ágústu.

Við heppin!

UPPSKRIFTIR FRÁ ÁGÚSTU:  GÚSTUDRAUMUR  og STEIKTUR SALTFISKUR