Hleð viðburði

« Allir viðburðir

  • This viðburður has passed.

Nótan 2020

29.03.2020 @ 08:00 - 17:00

NÓTAN – uppskeruhátíð tónlistarskóla fagnar 10 ára afmæli sínu í ár en Nótan var fyrst haldin árið 2010 og hefur verið árlegur viðburður síðan. Haldið verður upp á afmælið með pomp og pragt í Hörpu sunnudaginn 29. mars 2020.

Tónleikaröð – Eldborg
Í Eldborg verður boðið upp á röð tónleika frá kl. 11:00 til 15:00 þar sem fram koma tónlistarnemendur hvaðanæva af landinu, á öllum aldri og öllum stigum tónlistarnámsins. Á afmælisárinu er sjónum sérstaklega beint að samspili og því hafa hverskonar hljómsveitar- og/eða hópatriði fengið boðskort í afmælisveisluna!

Tónlistarsmiðjur
Samhliða tónleikaröðinni fara fram tónlistarsmiðjur í austurhlið Hörpu þar sem þátttakendur skapa og æfa sérstakt tónverk í tilefni 10 ára afmælisins en verkið verður flutt á lokaathöfn afmælishátíðarinnar kl. 16:00 í Eldborg. Gunnar Ben, dósent og fagstjóri skapandi tónlistarmiðlunar í Listaháskóla Íslands, mun stýra tónverkasmíðinni.

Konsertveisla – Hörpuhorn
Í samstarfi Nótunnar og Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna verða sérstakir konserttónleikar í Hörpuhorni á 2. hæð þar sem tónlistarnemendur, sem hafa áhuga á að spila einleik með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, munu stíga á stokk og flytja konsertkafla (eða sambærilegt verk). Oliver Kentish, stjórnandi hljómsveitarinnar, mun velja þá heppnu úr hópi flytjenda sem fá að leika einleik með hljómsveitinni á næsta starfsári hennar.

Lokaathöfn afmælishátíðar – Eldborg
Með lúðrakalli Nótunnar „NótutóN“-i verður blásið til lokaathafnar afmælishátíðarinnar í Eldborg kl. 16:00 þar sem Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna mun koma fram, afmælisbarnið ávarpað og sjóðheitt afmælistónverk Nótunnar frumflutt af þátttakendum!

• Röð tónleika í Eldborg – kl. 11:00-15:00
• Konsertveisla í Hörpuhorni – kl. 11:00-14:00
• Tónlistarsmiðjur í Austurhlið – kl. 11:00-16:00
• Lokaathöfn afmælishátíðar í Eldborg – kl. 16:00-17:00

Upplýsingar

Dagsetn:
29.03.2020
Tími
08:00 - 17:00

Staðsetning

Harpan- Reykjavík