Upptaktur í Hörpu
Það var stórkostleg stund í Hörpu í gær, 18. apríl, þegar systurnar Iðunn og Urður Óliversdætur fengu flutt lög sem þær sendu inn í Upptakt á Barnamenningarhátíð. Þar er ungu fólki gefið tækifæri til að senda inn tónsmíðar og vinna markvisst úr hugmyndum sínum með listnemum og listamönnum. Nemendur í Listaháskólanum útsettu verkin og þróuðu í samvinnu við stelpurnar. Í ár bárust 65 umsóknir í Upptakt og 14 hugmyndir valdar til að vinna með áfram. Urður og Iðunn sendu inn lög sem voru valin.
Urðar lag er samið til Iðunnar og lýsir vel því sem hefur gengið á hennar lífi í vetur. Una Torfadóttir söng lagið og gerði það ótrúlega vel með frábærum flytjendum.
Eftir Iðunni voru flutt tvö lög og er annað þeirra tileinkað Beata Joó píanókennaranum hennar (seinna lagið í syrpunni). Lögin hennar lifnuðu líka við með einstökum hætti.